Fara í efni

Einn sjúkdómur hrjáir alla sem þjást - Guðni á miðvikudegi

Einn sjúkdómur hrjáir alla sem þjást - Guðni á miðvikudegi

AÐEINS EINN SJÚKDÓMUR

Einn sjúkdómur hrjáir alla sem þjást – sjúkdómurinn nefnist aðþrengt hjarta. Við náum okkur í sjúkdóminn með því að hafna okkur og afneita í augnablikinu; með því að neita okkur um ást og rými í eigin lífi. Aðþrengt hjarta upplifir streitu, stress, ótta, vantraust og kvíða. Öll þessi atriði þrengja að rými hjartans og reyna að kæfa það. Hvernig gerum við það? Með því að hafna okkur og efast um eigið ágæti, afneita hverju augnabliki með því að vilja ekki vera þar sem við erum, eins og við erum, með því að búa til fjölhæfar og margþættar blekkingar sem við notum, vitandi eða óafvitandi, til að forðast tilfinningar okkar. Til að forðast að finna til og í leiðinni forðast að vera til.

Til-finning? Hvað þýðir orðið? Að finna til. En finna til hvers? Finna til sín. Finna fyrir sér.

Aðþrengt hjarta er eini sjúkdómurinn. En hver er þá eina bataleiðin? Svarið er einfalt: Batinn felst í því að sleppa krumlunni af hjartanu og leyfa því að slá. Batinn felst í því að mæta inn í eigin mátt og elska sig af öllu hjarta, sama hvað gerist, sama hvar þú ert.

Um leið og þetta gerist í einlægni skapast meira rými fyrir hjartað. Rými er heimild og það opinberar vilja okkar til að þiggja ást og velsæld. Slagrými hjartans segir til um það leyfi sem við höfum veitt okkur í vitund, viljandi eða óviljandi.