Fara í efni

Ekkert er háð viljaleysi eða tilviljunum - Hugleiðing frá Guðna á miðvikudegi

Miðvikudagshugleiðingin.
Ekkert er háð viljaleysi eða tilviljunum - Hugleiðing frá Guðna á miðvikudegi

Þú velur eða skortdýrið velur.

Þetta lögmál gildir um alla tegund næringar, matinn sem við borðum, vökvann sem við drekkum, andrúmsloftið sem við öndum að okkur, orðin sem við lesum, orðin sem við heyrum frá vinum og vandamönnum, orðin sem við heyrum innra með okkur.

Allt er með vilja gert. Ekkert er háð viljaleysi eða tilviljunum – enda þýðir orðið tilviljun einfaldlega „að vilja til sín“. Allt er með þínum vilja gert og aðeins tvær leiðir eru færar að þeim vilja – í vitund eða ekki. Þegar þú velur hvernig næringu þú innbyrðir á hverjum degi stjórnar þú hvernig þér líður, en þegar þú velur ekki næringu í vitund þá stjórnast valið af því hvernig þér líður.

Valkvíði er að neita sér um beint vald – að velja að velja ekki og vera þar með fórnarlamb.
Ekki síst orðin innra með okkur – þau enduróma á háum styrk, vel og lengi, til hverrar frumu líkamans.
Um alla þessa næringu gildir sama lögmálið – þegar við sjáum til þess að hún sé jákvæð þá stýrum við eigin líðan. En þegar við höfum ekki fyrir því að stýra næringunni mun næringin stýra líðan okkar og hegðun gagnvart öðrum manneskjum og heiminum.

Kostirnir eru tveir.

Annaðhvort stýrir líðanin næringu okkar til vansældar – líðanin velur og styrkir vítahringinn. Eða þá að næringin stýrir líðan okkar til velsældar – við veljum og styrkjum okkur sjálf.