Fara í efni

Endurnýjum matarmenninguna

Heimavinnsla bænda og íslenskir bændamarkaðir.
Endurnýjum matarmenninguna

Heimavinnsla bænda og íslenskir bændamarkaðir.

Matarárstíða og menning, matarferðaþjónusta, svæðisbundinn matur og viðskipti beint við bóndann, hvaða möguleika og framtíðarhorfur hefur þessi markaðsþróun á Íslandi?  

Hver er  framleiðsla og vöruþróun íslenskra afurða? Þegar horft er til matarmenningar okkar Íslendinga undanfarin ár er ljóst að hún hefur einkennst af hnattvæðingu í matvælamenningu mismunandi  þjóða og fjöldaframleiðslu matvæla og verið drifin áfram af markaðshyggju. Neytandinn hefur keypt og neytt hráefnis sem hefur átt viðkomu í þremur löndum þ.e. framleitt í einu, unnið í öðru og svo loksins pakkað í því þriðja. Neytandinn kaupir pakka með innihaldslýsingu, en kann lítið sem ekkert að lesa á umbúðir eða nýta sér þekkingu verslunarfólks sem því miður er oft á tíðum takmörkuð.

Matvælaframleiðsla getur verið flókið og gríðarlega yfirgripsmikið ferli og þarf að vera arðbær til þess að dæmið gangi upp. Það hefur því leitt til þess að hún hefur verið í höndum fárra.  Áður fyrr var bóndinn með framleiðslu og sölusamning við hið opinbera, þá tók milliliður við afurðunum til  matvælaframleiðslu  eða pökkun í verslun.

Breyting á löggjöf Evrópusambandsins sem gildir einnig um matvælaframleiðslu á Íslandi og sérákvæði frá árinu 2006 sem heimila milliliðalausa sölu frá bónda til neytandans hefur gert svæðisbundna sölu matvæla  mögulega. Í þessum breytingum felast tækifæri til atvinnusköpunar og vöruþróunar hjá einyrkjum sem vilja selja vöru sína beint til neytandans.

Lokaverkefni Inga Hafliða Guðjónssonar við viðskipta- og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri fjallar einmitt um þá viðskiptahætti að kaupa beint frá býli og hvernig það getur orðið arðvænlegra fyrir bóndann. Með fjölgun erlenda ferðamanna hafa kröfurnar breyst vegna þess áhuga sem þeir hafa sýnt á mat úr héraði. Íslenskar matarhefðir hafa m.a. þess vegna fengið aukið vægi og nú spretta upp matsölustaðir með vísan í svæðisbundið hráefni  í matargerð.

Þessi áhugi erlendra ferðamanna hefur ýtt rækilega við okkur Íslendingum og mætti líkja því við að vakna upp af Þyrnirósarsvefni í þessum efnum. Hnattvæðing í matargerð er þróun í nútímaþjóðfélagi, en í dag er þjóðin að átta sig á þeim tækifærum og þeim verðmætum sem felast í íslenskum matvælum og matarafurðum tengdum ferðaþjónustu og þar með breyttum markaðsáherslum.

Tækifæri felast í þróun og þekkingu og neytandinn hefur í tímans rás breytst hvað varðar þær kröfur sem gerðar eru um uppruna vöru og innihaldslýsingu. Mætti þar nefna eiturefni, umhverfisáhrif, dýravernd og sanngjarna viðskiptahætti „Fair Trade“ . Er þetta hægt og sígandi að þróast út í að verða skilyrði þrátt fyrir að sá hópur neytenda sem lætur sig þetta varða sé ennþá fámennur. 

Í þessu geta því falist mörg tækifæri  fyrir einyrkja og þá er brýnt að þeir leggi áherslu á að vera sýnilegir með sína framleiðslu og gætu bændamarkaðir verið gott innlegg í því efni. Í dag eru strangar kröfur og eftirlit varðandi framleiðslu matvæla og gæðaafurða. Einnig þarf að uppfylla  strangar kröfur um heilbrigði og gæði. Þrátt fyrir þetta ætti það ekki að koma niður á gæðum (nema síður væri) þó  bóndinn sjálfur taki að einhverju leyti þátt í framleiðslunni.  Með því yrðu upplýsingarnar um framleiðsluna ljósar og rekjanleikinn því auðveldaður.  „Beint frá býli“ eru samtök  sem hvetja til heimavinnslu og sölu á heimaunnum afurðum.

Á vefsíðu félagsins segir „Meginmarkmið félagsins er að tryggja neytendum gæðavörur þar sem öryggi og rekjanleiki vöru er í fyrirrúmi. Félagið skal einnig hvetja til varðveislu hefðbundinna framleiðsluaðferða og kynningar á svæðisbundnum hráefnum og hefðum í matargerð“. Á austurlandi er staðreyndin sú að t.d. bygg sem ræktað er fyrir austan er sent til Reykjavíkur í pökkun og jafnvel fiskur og kjöt líka. Vörurnar koma svo aftur austur og eru til sölu í verslunum þar.

Fyrr á öldum voru stunduð viðskipti á mörkuðum og skiptu slíkir markaðir miklu máli fyrir bóndann sem þar seldi afurðir sínar og efnahag viðkomandi landsvæðis. Viðskipti við  bændur hljóta enn í dag að hafa sömu áhrif. Hver ætli sé hagur bóndans af að framleiða sjálfur eða notast við milliliði eins og flestir gera í dag?  

Á Bretlandseyjum eru starfækt samtök sem heita FARMA sem hafa það markmið að veita bændum tækifæri til að selja sína afurð beint til neytandans. Starfræktir eru um 800 markaðir víðs vegar um Bretlandseyjar og 4000 bændabúðir þar sem bóndinn selur vörur úr því hráefni sem hann framleiðir. Sem dæmi um frábæra þróun á þessu sviði þá framleiða Bretar nú meira af handunnum ostum en Frakkar.

Hugmyndin um að koma upp bændamarkaði er ekki ný hér á landi. Það hafa verið gerðar nokkrar tilraunir til þess að setja upp hálfgerða bændamarkaði. Sumar hafa skilað árangri aðrar ekki. Flestir ef ekki allir þessir markaðir hafa verið settir upp af öðrum en bændum þ.e. milliliðum þannig að bóndinn/ræktandinn sjálfur er ekki með alla ábyrgð. Von okkar er að þessar hugleiðingar geri samtökunum „Beint frá býli“  hærra undir höfði og við sem neytendur förum að sjá okkur hag í þeim möguleika að kaupa beint frá bóndanum sjálfum.

Ekki spillir að hafa skoðun á innihaldið matvaranna, dýravernd og framleiðslu. Varðveitum matarmenningu okkar og aukum hagkerfið með ástríðu og metnaði til landsins og afurðanna sem það getur gefið og aukum fjölbreytni með því að kaupa inn í héraði það sem við á.

Elísabet Reynisdóttir, MS nemi í næringarfræði og Ingi Hafliði Guðjónsson matsveinn og viðskiptafræðingur, skrifðu þessa grein.