Þú ert fyrirmynd!ill
Það hafa flestir séð auglýsingarnar frá umferðarstofu, þar sem barnið aftur í bílnum er að herma eftir ökumanninum. Blótandi og kvartandi yfir umferðinni. Reyklaus.is auglýsingarnar náðu mér þar sem barnið var að þykjast reykja eins og mamman. Því miður hefur ekki verið gert myndband um mataræði og matarvenjur foreldra og barna. En hún gæti verið svona. Þú ert staddur/stödd í kjörbúð og barnið þitt skoðar allt sem fer í körfuna og vill auðvitað fá allt eins og mamma og pabbi. Ef foreldrarnir drekka mikið gos, fá sér pizzu alla föstudaga, stóran nammi poka alla laugardaga og borðar mikið af unnum og tilbúnum, sykruðum og aukaefnasprengju mataræði þá er það eins hjá börnunum. Við erum fyrirmyndirnar og við getum skipt óhollustunni út og hollustu inn. Þú berð ábyrgð á eigin heilsu. Og ef þú ert foreldri þá berðu líka ábyrgð á heilsu barnanna þinna líka. Þegar barn er matvant þá er það því miður í flestum tilfellum mataruppeldi að kenna. Við erum því miður of oft fljót að gefast upp eða gefa eftir. Hvað er langt síðan þú skarst niður ávexti handa börnunum þínum? Hefurðu prófað að taka frá hálftíma einu sinni í viku í matseðlagerð? Settu niður á blað 14 rétti fyrir kvöldmat og þrjá fyrir morgunmat. Reyndu svo að nýta afganga í hádeginu. Vertu í hollari kantinum en þó verður þú að passa að kúvenda ekki mataræðinu á einni viku. Það virkar ekki og er ekki breyting á lífsstíl. Heldur skammtímalausn sem allir gefast upp á. Taktu nú alla með þér í fjölskyldunni í að velja hvað á að vera í matinn næstu vikuna. Gerðu svo innkaupalista og farðu eftir honum.
Davíð Kristinsson
Heilsuþjálfari og höfundur bókarinnar 30 DAGAR Leið til betri lífsstíls.
www.30.is