Fara í efni

Enn eitt vafasamt megrunarmeðal á íslenska markaðnum.

Dr. Oz  mælir með því sem honum er borgað fyrir.
Dr. Oz mælir með því sem honum er borgað fyrir.

Það má varla opna tímarit, dagblað eða Facebook þessa dagana án þess að rekast ekki á auglýsingu þar sem verið er að lofa Rasberry Ketones. Ef þú hefur látið þessar auglýsingar plata þig til að eyða peningum í þetta svo kallaða "grenningar lyf" þá keyptir þú köttinn í sekknum, þú sérð hér að neðan hver ástæðan er. 

Í þetta sinn belgir sem eiga að innihalda  “hindberjaketóna með grænu tei”. Þess konar vörur hafa verið mikið auglýstar í íslenskum fjölmiðlum síðustu vikur. Til vitnis um ágæti vörunnar er í sumum auglýsingum sérstaklega tekið til þess að Dr. Oz hafi mælt með henni.

Ekkert er fjær sanni en að hér sé um að ræða vöru sem sé líkleg til þess að gagnast sem megrunarhjálp.

Í fyrsta lagi eru ekki til neinar rannsóknir sem sýna áhrif hindberjaketóns (HK) til megrunar í manneskjum*.

Tilraun á rottum sýndi engin áhrif á þyngd þeirra af risaskömmtum.*

Tilraun á músum sýndi að stórir skammtar af HK gætu minnkað þyngdaraukningu við mjög fituríkt fæði.

Tilraunaglasarannsókn sýndi að það hefði áhrif á efnaskipti í fitufrumum líkt og skyld efni svo sem capsaicin (sterka efnið í chilli og piparúða) og synephrin (örvandi efni).

Raspberrykynningartilbod

Þetta er allt og sumt sem til er ennþá. Vissulega eru þarna vísbendingar sem mætti byggja frekari rannsóknir á en frá þessum fyrstu frumstæðu niðurstöðum er langur vegur að því að vita hvort það gerir nokkurn skapaðan hlut fyrir manneskjur. Það er sem sagt ekkert vitað um hvort HK hentar til megrunar í mannfólki. Það er ekkert vitað um hvaða skammta þyrfti til að fá marktæk megrandi áhrif og enn síður hvort það sé yfir höfuð öruggt til neyslu í þeim skömmtum. Það eina sem er vitað er að mýs sem fengu það sem einn hundraðshluta af mjög fituríku fæði þyngdust ekki eins mikið og þær sem ekki fengu HK með fitufæðinu og rottur sem fengu HK léttust ekki.
Sögur um að sumir neytendur hafi megrast meðan þeir átu meðalið sannar hvorki eitt né neitt um verkun þess.

Í öðru lagi er HK ekki framleitt úr hindberjum heldur búið til í efnaverksmiðjum.  

Á heimasíðu íslensks seljanda stendur:

“Raspberry Ketons er náttúrulegur andoxunargjafi unninn úr kjarna hindberja og græns te”

Raspberry_ketone

p-Hydroxybenzyl acetone – öðru nafni “hindberjaketón”

Þetta er ósatt. Það mundi aldrei borga sig að framleiða efnið náttúrulega því það þyrfti að minnsta kosti 200kg af hindberjum til þess að framleiða nóg af efninu fyrir eitt hylki (400mg).
Náttúrulega framleitt HK er mjög vandfengið og kostar um tvær og hálfa milljón krónur kílógrammið. Grænt te inniheldur ekki HK.  HK er eitt helsta ilmefnið sem gefa hindberjum sinn dæmigerða ilm.

Í þriðja lagi. Í hylkjunum frá þeim framleiðanda sem helst hefur auglýst undandfarið er sagt að auk HK sé “extrakt af grænu tei”.  Ekki er skýrt hvers vegna þetta sé haft með í hylkjunum en það er væntanlega gert vegna hressandi áhrifa þess. Megrunaráhrifin af grænu tei eru sama og engin og það sem er í þessum hylkjum gerir varla mikið gagn. Mun betra að drekka bara venjulegt te ef maður trúir á mátt þess.

Í fjórða lagi er sjónvarpssölumaðurinn Mehmet Cengiz Öz afskaplega ótrúverðug uppspretta upplýsinga um heilsutengd efni. Hann er vissulega menntaður sem hjartaskurðlæknir en hefur fyrir löngu yfirgefið sannleikann. Hann stundar vægast sagt umdeilda sjónvarpssölumennsku á hvers kyns fæðubótarefnum og heilsuvörum undir vörumerkinu Dr. Oz. Öz heldur því reyndar fram að hann starfi enn sem læknir en það er erfitt að trúa því þar sem hann heldur úti daglegum sjónvarpsþáttum nú orðið. Dr. Oz er sem sagt lítið annað en loddari sem græðir á tá og fingri á því að misnota læknistitil sinn til þess að auglýsa heilsuvörur. Að hann mæli með fæðubótarefni eða þvíumlíku er sjaldan gæðastimpill. Dr. Öz  mælir með því sem honum er borgað fyrir.

Svo má auðvitað enn og aftur minna á að enn hafa ekki fundist nein undraefni sem duga sem megrunarmeðul. Þau fáu efni sem hafa einhverja slíka verkun duga ekki nema að mjög takmörkuðu leyti til megrunar og kúrar, hverju nafni sem þeir nefnast, duga bara svo lengi sem þeim er fylgt samviskusamlega.

Góð og varanleg megrun fæst ekki nema af varanlegum lífsháttabreytingum.

Að öllu samanteknu þá er ekkert sem bendir til þess að megrunarvörur sem innihalda HK séu peninganna virði.

Björn Geir Leifsson, læknir