Fara í efni

Er þunglyndi í kjölfar hjartaáfalls/hjartasjúkdóms áhyggjuefni?

Þegar við hugsum um áhættuþætti fyrir hjartasjúkdóma er þunglyndi kannski ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann. Það er aftur á móti stór áhættuþáttur og ekki minni áhættuþáttur en of hár blóðþrýstingur, offita eða hátt kólestról.
Er þunglyndi í kjölfar hjartaáfalls/hjartasjúkdóms áhyggjuefni?

Þegar við hugsum um áhættuþætti fyrir hjartasjúkdóma er þunglyndi kannski ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann. Það er aftur á móti stór áhættuþáttur og ekki minni áhættuþáttur en of hár blóðþrýstingur, offita eða hátt kólestról. Þunglyndi getur einnig haft áhrif á bataferlið hjá fólki með hjarta- og æðasjúkdóma og aukið hættuna á frekari hjartavandamálum [1].

Þunglyndi er 3x algengara hjá einstaklingum í kjölfar hjartaáfalls heldur en hjá öðrum. Um 15% til 20% ná greiningarskilmerkjum fyrir alvarlegt þunglyndi í kjölfar hjartaáfalls og enn fleiri finna fyrir auknum þunglyndiseinkennum [2]. Colguhoun og félagar (2013) segja í grein sinni frá yfirlitsrannsókn sem gerð var af áströlskum sérfræðingum á vegum Alþjóðlegu Hjartasamtakanna í Ástralíu árið 2003. Sú rannsókn ályktaði að þunglyndi væri mikilvægur áhættuþáttur fyrir fyrsta sem og endurtekin hjartatengd atvik. Þeir greina einnig frá annarri rannsókn þar sem allt að 15% þeirra sem hafa fengið hjartadrep (e. myocardial infarction) eða kransæða hjáveitu ígræðslu (e. coronary artery bypass grafts) greindust með alvarlegt þunglyndi. Ef vægara þunglyndi er tekið með inn í reikninginn þá greina rannsóknir frá allt að 40% algengi þunglyndis [3]. Einnig hefur þunglyndi tengsl við aðra áhættuþætti eins og reykingar, það er fólk sem glímir við þunglyndi er líklegra til að reykja. Þunglyndi hefur líka áhrif á bataferlið og getur aukið hættuna á t.d. öðru hjartaáfalli eða dauðsföllum í kjölfar hjartaáfalls [4].

Þunglyndi er ekki bara það að vera niðurdreginn. Þunglyndi er sjúkdómur sem hefur áhrif á einstaklinga bæði líkamlega og andlega og hefur skerðandi áhrif á daglegt líf. Til þess að ná greiningarskilmerkjum fyrir þunglyndi þá þarf depurð og leiði eða áhugaleysi og ánægjuleysi á því sem áður veitti ánægju að hafa verið til staðar yfir allavega tveggja vikna tímabil. Einnig þurfa önnur einkenni að vera til staðar, en birtingarmynd einstaklinga getur verið mismunandi. Það upplifa ekki allir þunglyndi eins og getur það komið fram sem ýmis konar kokteill af einkennum. Einkenni geta verið breyting á svefnmynstri og matarlyst, erfiðleikar með svefn, orkuleysi, mikil þreyta, erfiðleikar með einbeitingu, hugsun og ákvarðanatöku, vonleysistilfinning, sektarkennd, stuttur þráður, tilfinning um að vera einskins virði og jafnvel dauðahugsanir. Framtaksleysi er algengt sem og félagsleg einangrun, einstaklingur getur hætt að hafa ánægju af því sem hann hafði áður gaman af og getur upplifað mikið vonleysi [5].

Það er í raun ekkert skrýtið að einstaklingar sem lenda í því að fá hjartaáfall eða eru að kljást við hjarta- og æðasjúkdóm finni fyrir einkennum þunglyndis. Atvik sem hafa mikil áhrif á einstakling og ógna jafnvel lífi viðkomandi geta verið undanfari þunglyndis. Viðkomandi getur þurft að glíma við ýmsar breytingar, getur jafnvel ekki gert margt sem hann gat áður og þarf að aðlaga sig að nýjum lífstíl. Þunglyndi getur bankað upp á í þessum aðstæðum en það þýðir ekki að það sé eðlileg afleiðing hjartaatvika og eitthvað sem ber að sætta sig við og lifa með. Langt í frá. Mikilvægt er að grípa inn í sem fyrst vegna þess að þunglyndi eykur ekki aðeins þjáningar viðkomandi heldur getur það haft slæm áhrif á bataferlið sem og aukið líkurnar á öðru hjartaáfalli eða jafnvel dauðsfalli, eins og áður hefur komið fram [2].

Til að lesa þessa grein til enda smelltu þá HÉR. 

Grein af hjartalif.is