Ertu í vanda?
Ef þú heldur að þú eða einhver sem þér þykir vænt um þurfi aðstoð vegna áfengis- eða vímuefnavanda talaðu þá við ráðgjafa okkar á göngudeildum SÁÁ. Þeir munu taka þér vel og svara spurningum þínum. Þú getur pantað þér viðtal eða haft samband í síma 530-7600 á skrifstofutíma á virkum dögum.
Góðu fréttirnar eru þær að flestir ná góðum árangri, sem leita aðstoðar hjá SÁÁ og horfast í augu við vandann. Meðferðin sem veitt er hjá SÁÁ getur verið mjög mismunandi, allt frá einu viðtali yfir í viðamikla meðferð sem stendur í vikur, mánuði eða ár. Rétta leiðin fer eftir því hversu alvarlegur vandi einstaklingsins er. Fyrsta skrefið er að fara í viðtal hjá áfengis- og vímuefnaráðgjafa hjá SÁÁ.
Aðstandendum áfengis- og vímuefnaneytanda býðst einnig margvísleg fræðsla og meðferð á göngudeildum SÁÁ. Í boði eru fyrirlestrar, viðtöl og sérstök Fjölskyldumeðferð með fyrirlestrum og hópvinnu á kvöldin og um helgar í fjórar vikur. Að lokinni fjölskyldumeðferð geta aðstandendur nýtt sér vikulegan stuðningshóp á göngudeild.
Spurningalistar og sjálfspróf geta veitt gagnlegar upplýsingar og gefið vísbendingar um stöðu mála. Þú getur skoðað slíka lista með því að smella hér.
Hér til hliðar eru tenglar á meiri upplýsingar um áfengis- og vímuefnasjúdóminn og meðferð SÁÁ fyrir alkóhólista, fíkla og aðstandendur. Við vonum að þær komi þér að gagni og minnum aftur á símann á göngudeildinni, 530 7600.
Af vef saa.is