Fara í efni

Eru kviðæfingar bara kviðæfingar?

Hvers vegna gerum við kviðæfingar?
Eru kviðæfingar bara kviðæfingar?

Hvers vegna gerum við kviðæfingar?

Flestir gera kviðæfingar til þess að bæta útlit og sækjast eftir því að "sjá í" kviðvöðvana.

Það er ekki sniðugt að hamast alltaf í sömu kviðæfingunum dag eftir dag. Það er af því að kviðveggurinn er byggður úr mörgum vöðvum sem spennast og slaka í mismunandi áttir.

 

Ég hef ekki tölu á því hvað ég hef þjálfað marga einstaklinga sem hafa verið í sömu kviðarkreppunum og uppsetunum til margra ára. Í þessum hefðbundnu kviðarkreppum og uppsetum, sem eru líklegast fyrstu kviðæfingarnar sem allir sem ganga á þessari plánetu læra, er aðeins verið að vinna með einn vöðvahóp, Rektus kviðvöðvana (e.Rectus abdominis). Að láta einn vöðvahóp í slíka yfirvinnu getur oft leitt til meiðsla, svo sem bakmeiðsla og í slæmum tilfellum getur kviðveggurinn aðskilist.

Já þú last rétt, kviðveggurinn getur aðskilist og gerist það oft hjá ófrískum konum. Þær þurfa því sérstaklega að vanda valið á kviðæfingum eftir barnsburð. Þurfa þær einnig helst að vera búnar að láta athuga miðlínu kviðar (e. linea alba) sem er bandvefur sem tengir kviðvöðvana saman.

Aðskilinn kviðveggur er samt ekki eitthvað sem gerist aðeins hjá ófrískum konum. Þetta getur einnig verið vandamál hjá íþróttafólki. Margir þættir geta spilað þar inn í eins og til dæmis notkun stera, lélegt val á kviðæfingum og ofþjálfun á einn kviðvöðvahóp svo eitthvað sé nefnt.

Joseph Pilates, maðurinn sem fann upp pilates var með slæmt tilfelli sem ágerðist með aldri. Orsökin var ofþjálfun á kviðvöðvana og slakt val á æfingum. Það hefur runnið mikið vatn til sjávar síðan og geri ég ráð fyrir að Pilates í dag sé mun þróaðra en á þeim tíma er hann var upp á sitt besta.

Ég mæli með því að unnið sé með miðjuna sem eina heild. Það þarf að vinna með alla vöðvahópa, að framan, aftan og til hliðar. Með jöfnu álagi á kvið- og bakvöðva, þá eru mun meiri líkur að þú haldir þig frá meiðslum, líkaminn vinnur betur. Ef þú ert í íþróttum, þá eru mun meiri líkur á jöfnum gæða bætingum til langs tíma. En ekki vanmeta hvíldina, því þessir vöðvahópar þurfa líka hvíld eins og aðrir.

Munið að bætingar koma fram í hvíldinni.

 

Stiklað er á stóru eins og vanalega, ef þú hefur einhverjar spurningar sendu þá póst á faglegfjarthjalfun@gmail.com eða sendu skilaboð á facebook síðunni HÉR.