Eru rykmaurar það sama og rykmítlar?
Til skamms tíma var oft talað um rykmaura en nú er mælt með því að nota frekar hugtakið rykmítlar.
Í dag nota menn maurahugtakið eingöngu um félagsskordýr (Insecta) og eru hinir sexfættu klóakmaurar sem lifa víða í holræsum á Reykjavíkursvæðinu dæmi um alvöru maura. Til skamms tíma notuðu menn maurahugtakið samt iðulega um ýmsar áttfætlur (Acarina) en þær hafa, eins og nafnið ber með sér, átta fætur og mynda sérstakan ættbálk í dýraríkinu við hlið skordýranna.
Rykmítlar eru litlar áttfætlur, um 0,3 mm á lengd.
Fyrir áeggjan Bjarna Guðleifssonar, sérfræðings meðal annars í grasmítlum, hafa dýrafræðingar hérlendis sammælst um að nota mítlahugtakið einvörðungu um áttfætlur en halda maurahugtakinu fyrir félagsskordýr. Þannig tala menn ekki lengur um mannakláðamaur heldur mannakláðamítil, á sama hátt um rykmítla í stað rykmaura og hársekkjamítla, svo nokkur dæmi séu tekin.
Í leiðinni var einnig ákveðið að hætta að nota lúsarhugtakið (lýs og flær eru skordýr) um mítla. Þannig er áttfætlan sem áður fyrr var nefnd lundalús í dag nefnd lundamítill og áttfætlur sem lifa á því að sjúga blóð eru nefndir blóðmítlar.
Fengið af visindavefur.is