Fá allir karlar skalla?
„Það eru bara genin sem ráða því hvort menn fá skalla eða ekki“, sagði Jón Halldór Guðmundsson hárskerameistari þegar Lifðu núna leit inná Rakarastofuna hans Effect til að spyrja hann hvort allir karlar fengju skalla.
En hann sagði það líka til í dæminu að menn fengju sjúkdóminn Apolocia, en við það misstu þeir allt líkamshár. Stundum kæmi hárið aftur, en stundum ekki. Bæði konur og karlar geta fengið sjúkdóminn.
Fjölnir fær ekki skalla
Jón Halldór var að klippa Fjölni Þorgeirsson, en faðir hans fékk skalla. Fjölnir sagðist ekki óttast að fá skalla og Jón Halldór staðfesti það. „Hann fær ekki skalla“, sagði Jón Halldór, „hárið væri byrjað að þynnast ef svo væri“. Þar með var það afgreitt, en skalli erfist í móðurætt og ef móðurafi karlmanns var sköllóttur er líklegra að hann verði það einnig. Móðurafi Fjölnis var með þykkt og liðað hár.
Aflraunatröll með skalla
Hár þeirra sem fá skalla byrjar að þynnast í hvirflinum og í kollvikunum. Að lokum nær þetta svo saman, en hártota liggur þá gjarnan fram á ennið. Þeir félagar Jón Halldór og Fjölnir voru ekki frá því að karlmenn með mikið líkamshár, fengju frekar skalla. „Ef þú tekur tröll í aflraunum, þá sérðu ekki mikið hár á hausnum á þessum gæjum“, sagði Jón Halldór.
Ekkert hægt að gera
Það er engin lækning til við skalla. Það er til lyf í Bandaríkjunum og Bretlandi sem er talið að geti í einhverjum tilvikum frestað því að menn fái skalla og Jón Halldór segir að það sé hægt að fá það í gegnum Landlækni. En í sumum tilvikum geri það ekkert gagn. Hann segir menn ekki jafn viðkvæma fyrir því og áður að fá skalla. Hér áður fyrr voru menn að reyna að greiða yfir skallann, eða fengu sér jafnvel hártopp til að hylja hann.
Sexý með skalla
Það varð tíska að vera sköllóttur og það varð allt í einu flott að vera með skalla, segir Jón Halldór. Hann telur ýmislegt hafa valdið þessu, svo sem NBA deildin í körfubolta og síðan hafi menn eins og Bubbi Mortens og Egill Ólafsson sýnt og sannað að það er hægt að vera glæsilegur og sexý, með skalla. „Þá hættu menn að reyna að fela skallann og ef hárið var orðið þunnt og slepjulegt, stigu menn skrefið til fulls, rökuðu það af, og voru flottir“, segir Jón Halldór.
Heimild: lifdununa.is