Fæða er næring líkama og sálar
Í öllu tali um „besta kúrinn af þeim öllum“ gleymist oft það sem málið snýst um - tengsl næringar og heilsu.
Fæða er orku- og næringargjafinn
Matur er orka og næring; knýr líkamann áfram, hefur marktæk áhrif á heilsu og líðan og mögulega einnig langlífi. Þetta vita flestir þrátt fyrir að of margir mæti ekki þessum frumþörfum nema að hluta til.
Flestir tengja líkamlegt þrek við fæðuna sem þeir borða, þetta snýst bæði um magnið en einnig hversu heilnæmur maturinn er. Of lítil orka þýðir gjarnan kraftleysi, og sama má segja um allt of mikinn mat sem gerir okkur löt og værukær. Mikill sykur magnar það ástand svo enn frekar upp hjá sumum.
Það sama má segja um næringuna. Næringarsnauð fæða gefur ekki nægan kraft né stuðlar að jafnvægi í andlegri líðan á meðan næringarríkur matur hefur áhrif til hins betra. Næringarefni í nægu magni styðja við áhrif hreyfingar og heilsuræktar og bæta svefn. Þannig er næringarríkur matur hluti af mikilvægu jafnvægi líkama og sálar sem við flest sækjumst eftir.
Að feta meðalveginn
Það getur verið erfitt að feta réttan meðalveg með jafnvægi í orkuþörf og orkuinntöku, að velja næringaríkan og bragðgóðan mat sem veitir hæfilega mettun og fullnægir þeirri þörf sem við höfum fyrir að borða bragðgóðan mat. Margir mikla þetta skipulag fyrir sér, segja að það sé ekki nema á færi þeirra sem hafa lært þessi fræði og hafa nægan tíma til að; versla alltaf það rétta, velja alltaf réttu uppskriftirnar, elda hæfilega lengi og passa svo að borða ekki of mikið af þeim dásamlega mat sem lagður er óaðfinnanlega á diskana.
Þetta er ekki svona flókið heldur felst í góðu skipulagi á matartímum yfir daginn, skipulagi á matarinnkaupum, að lesa á umbúðir matvæla og síðast en ekki síst að taka uppskriftir ekki of alvarlega.
Hvað hefur áhrif á magnið sem við borðum
Lítill hluti líkamans er höfuðið og sálin en þessi litli hluti hefur gríðaleg áhrif á það hversu mikið við borðum, hvenær og af hverju. Hormón og taugaboð í heilanum stýra miklu um það hversu mikið og hvað við borðum og vísindin hafa kennt okkur að samsetning fæðunnar gerir það líka. Sumir borða til þess að lifa, aðrir til að geta æft nógu mikið. Sumir snúa þessu við og lifa til að geta borðað, sumir borða þegar þeir verða dapir á meðan aðrir missa áhugann á að borða þegar þeim líður illa. Eins og í öðru sem tengist lífsháttunum okkar, eru miklar sveiflur í mataræðinu ekki af hinu góða. Það er að sjálfu sér í lagi að leyfa sér tiltekið óhóf endrum og sinnum en yfir lengri tíma er slíkt ekki farsælt fyrir líkamann né hugræna þætti og „stopparinn“ fer kannski að breyta um stillingu með þeim afleiðingum að mettunartilfinningin kemur alltaf síðar og síðar.
Gott form – hvert er leyndamálið?
Hvert er leyndarmáið á bak við það að ná að halda sér í góðu líkamlegu og andlegu formi sem oftast og lengst inn í elli árin. Fyrst má nefna að vera með réttu genin en síðan kemur heilnæm fæða og hreyfing. Við það má bæta hæfileika til að öðlast hugrænt og andlegt jafnvægi og vinna úr mótlæti á uppbyggjandi og réttan máta
Hvernig metum við árangurinn
Hvernig getum við metið hvernig okkur er að takast til? Það er í sjálfu sér frekar einfalt. Við erum meðvituð um líkamann okkar, hvernig hann er frá tímabili til tímabils, frá ári til árs. Hvernig passa fötin á fullorðinsaldri, eru vönduðu fötin okkar að passa ár eftir ár. Erum við hraust og missum lítið úr vinnu. Höfum við orku og getu til að takast á við krefjandi verkefni og standa af okkur áföll og erum við fljót að komast á jafnvægis-brautina þegar þeim er lokið. Hvernig er heilsan almennt, eru allar pestir sem stinga sér niður að stoppa við hjá okkur og leggja okkur í rúmið. Slíkt gæti verið merki um að ónæmiskerfið mætti vera öflugra en það má styrkja með næringu, reglubundinni hreyfingu nægum svefni og hvíld.
Aðventan og jólin, mikilvægur tími
Nú fer í hönd tími sem er okkur flestum mjög mikilvægur. Röð daga þar sem spennan innra með okkur byggist upp, því okkur hlakkar til að upplifa þá velíðan og öryggi sem við þráum að finna fyrir á aðfangadagskvöld. Spennan og stressið veldur okkur þó oft vanlíðan og jafnvægisleysi og nú er einmitt tíminn sem við þurfum hvað mest á jafnvægi og reglu að halda í okkar lífsháttum. Að halda áfram að hugsa vel um okkur – ekki sleppa því að hreyfa sig af því það þarf að fara að versla eða að fara í ódýran og lélega mat eða skyndibita til að spara tíma til að geta verslað meira eða þrifið með eyrnapinna á bak við stóra þunga skápinn.
Njótum aðdraganda jólanna, verum dugleg að kveikja á kertum og gera notalegt hjá okkur og upplifa þannig jólin og þann boðskap sem þau færa okkur um frið, ró og kærleika. Það er til friður og ró og það er til fullt af kærleika ef við bara viljum gefa hann, sjá og finna.
Fríða Rún Þórðardóttir
Næringarfræðingur, næringarráðgjafi, íþróttanæringarfræðingur