Fara í efni

Fæðubótarefni í ofurskömmtum

Fæðubótarefni rokseljast um allan hinn vestræna heim. Fólk trúir auglýsingum framleiðendanna og telur sig öðlast betri heilsu og minnka líkur á alls kyns sjúkdómum ef það kaupir og notar fæðubótarefni.
Fæðubótarefni í ofurskömmtum

Fæðubótarefni rokseljast um allan hinn vestræna heim. Fólk trúir auglýsingum framleiðendanna og telur sig öðlast betri heilsu og minnka líkur á alls kyns sjúkdómum ef það kaupir og notar fæðubótarefni.

Sumir halda að því meira sem þeir kaupa og neyta, því fleiri efni og stærri skammta, því betri verði heilsan, því minni líkur á andstyggilegum sjúkdómum.

Falskt öryggi

Þó fæðubótarefni séu stundum æskileg og jafnvel nauðsynleg, geta þau gefið falskt öryggi, ef við teljum okkur trú um að við getum tekið þau í stað þess að borða fjölbreytta og næringarríka fæðu. Það er langbest að fá næringarefnin úr fæðunni. Næringarefnin vinna saman að því að efla heilsu okkar, og minnka líkur á sjúkdómum. Í fjölbreyttri og lítt unninni fæðu eru næringarefnin í réttum hlutföllum. Í fæðunni eru auk þess hundruð óþekktra eða lítt rannsakaðra efna sem gegna sínu nauðsynlega hlutverki. Í hverri pillu af fæðubótarefnum er eitt eða tiltölulega fá efni. Að taka eina steinefnategund umfram aðra, eða eina tegund andoxunarefnis, í langan tíma, getur truflað frásog úr meltingarvegi í blóð, virkni efna í líkamanum, og útskilnað um nýru. Stórir skammtar geta valdið uppsöfnun umframbirgða í lifur og jafnvel eituráhrifum. Á Íslandi, sem erlendis, hefur fólk verið lagt fárveikt inn á sjúkrahús með lifrarskaða eða nýrnaskaða vegna ofneyslu fæðubótarefna.

Andoxunarrík fæða

Það er ekki svo langt síðan vísindin fóru að beina sjónum sínum að andoxunarefnum. Andoxunarefnin er að finna í mörgum jurtum, ekki síst í berjum, og jurtaafurðum eins og grænu tei. Margt bendir til þess að þau séu bráðholl, geti eflt heilsu okkar og unnið gegn fjölmörgum sjúkdómum. Þetta kom í ljós þegar stórir hópar fólks voru spurðir um neysluvenjur sínar, og svo var fylgst með þeim árum saman. Ítrekað kom í ljós að þeir sem borðuðu andoxunarríka fæðu voru í minni sjúkdómshættu. Í kjölfarið hvöttu næringarfræðingar almenning til aukinnar neyslu andoxunarríkrar fæðu.

Andoxunarefni sem fæðubót

Andoxunarefnin voru einangruð úr jurtunum til að rannsaka þau nánar, og fæðubótarefnafyrirtækin brugðust skjótt við og markaðssettu þessi efni sem nauðsynlega fæðubót fyrir alla. Á meðan var haldið áfram að rannsaka andoxunarefnin. Þau voru gefin dýrum og fólki, ýmist heilbrigðu fólki eða sjúklingum. Og í þessum inngripsrannsóknum hefur oftar en ekki komið í ljós að áhrifin eru engin, eða í versta falli slæm. Það hefur í sumum rannsóknum mælst aukin hætta á sjúkdómum ef andoxunarefni eru tekin inn á einangruðu formi í stærri skömmtum en fást úr næringarríkri fæðu. Þetta þarf ekki að koma á óvart. Mannslíkaminn er ekki hannaður til að neyta stærri skammta af einangruðum næringarefnum en fást úr fæðunni.

Niðurstaðan er því sú að andoxunarrík fæða eins og grænmeti, ávextir og ber, er góð fyrir heilsuna, en neysla andoxunarefna sem fæðubót er í besta falli peningasóun, og getur jafnvel verið skaðleg heilsunni.

D-vítamín

Það er fleira en andoxunarefnin sem vekur hjá mér spurningar þessa dagana. D-vítamín er tískuefnið í dag. Ráðlagður dagsskammtur af D-vítamíni hefur verið hækkaður í Bandaríkjunum, og verið er að vinna að endurskoðun D-vítamínráðlegginga hér á landi og í fleiri löndum. Rætt hefur verið að D-vítamínbæta mjólkurafurðir. Sumum finnst þetta ferli taka of langan tíma, og vilja hækkunina mun meiri en nú er í umræðunni.

D-vítamínskortur

Ég vil bara benda á að það þarf að vanda til verka, og hafa hækkunina hvorki of litla né of mikla. Á Landspítalanum og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri (FSA) er D-vítamín mælt í blóði sjúklinga, og ef skortur mælist er sjúklingunum ráðlagt að taka stóra skammta D-vítamíns tímabundið, og auka D-vítamínneysluna hóflega til langs tíma. Einnig er þeim sem eru með beinþynningu eða í mikilli hættu á beinþynningu ráðlagt að taka stærri skammta en öðrum. Þetta er þá gert undir eftirliti sérfræðinga sem mæla stöðu D-vítamíns í blóði reglulega þar til jafnvægi hefur náðst.

Það er ekki þar með sagt að allir séu með D-vítamínskort, eða að allir þurfi á ofurskömmtum D-vítamíns að halda í lengri tíma. Það er beinlínis varasamt að almenningur labbi sig inn í næsta apótek eða heilsubúð og versli risaskammta af D-vítamíni eða öðrum fæðubótarefnum og taki mánuðum eða árum saman. Höfum reynsluna af andoxunarefnunum í huga og spyrjum að leikslokum.

D-vítamín úr sól og lýsi

D-vítamín fáum við úr sólinni á sumrin, en á veturna getum við fengið D-vítamín úr lýsi og feitum fiski eins og laxi, silungi, síld og lúðu. Þeir Íslendingar sem hvorki taka lýsi né borða feitan fisk reglulega eru í hættu á D-vítamínskorti yfir vetrarmánuðina. Þá geta fæðubótarefni komið sér vel, en hafa ber í huga að efri mörkin fyrir neyslu fullorðinna á D-vítamíni eru 50 míkrógrömm (2000 ae) á dag.

Anna Ragna Magnúsardóttir,  næringarfræðingur

Birt með leyfi af síðu upplyst.org