Falleg naglabönd í 6 skrefum
Núna er árstími rifnu naglabandanna.
Það fer fátt verra með naglaböndin en eilífur kuldi og því enn mikilvægara að hugsa vel um þau til að forðast sprungur og rifur sem óþolandi er að eiga við.
Falleg naglabönd í 6 skrefum
1. Ekki klippa naglaböndin
Það er engin góð ástæða fyrir því að klippa naglaböndin þó það sé iðulega gert til að flýta fyrir útlitsbætingu. Það er ekki nema skammgóður vermir því þau koma verri undan klippingu, verða harðari og eiga auðveldara með að rifna. Svo er líka sýkingarhætta og hætta á hvítum blettum og/eða línum í nöglum og eins rákum á yfirborði naglanna.
2. Notaðu naglabandapinna
Leggðu nú skærunum og notaðu frekar svokallaðan naglabandapinna. Þetta eru trépinnar með flága á öðrum enda og oddi á hinum og fást í flestum ef ekki öllum apótekum og snyrtivöruverslunum. Það er algjör mýta að naglaböndin vaxi hraðar ef þau hafa verið klippt svo vertu óhrædd að leggja skærunum og fara alfarið í pinnann. Það gæki tekið nokkurn tíma fyrir naglaböndin að verða fín ef þau hafa fengið að vaxa fram óáreitt en vertu þolinmóð, þau verða fallegri ef þú sleppir skærunum.
3. Raki
Naglaböndin þorna upp, þau verða hörð, springa og flagna alveg eins og húðin. Því oftar sem þú berð á þig, því betra. Berðu á þig þykkan og góðan handáburð yfir daginn og svo er stórsnjallt að nudda vaselíni á hendurnar á kvöldin fyrir háttinn. Vaselínið er annars ansi óhentugt á öðrum tíma dags vegna hversu feitt það er. Það smitast í allt og skilur eftir fitabletti í fötum svo passaðu hvað þú kemur við.
4. Vertu mjúkhent með þjölina
Það er þekkt að að fá sveppasýkingu í húð umhverfis nöglina eftir harðhenta nagladömu sem hamast með þjölinni upp í naglaböndin. Vertu mjúkhent og athugaðu hjá þér tæknina ef þú verður rauð í húðinni umhverfis nöglina eftir þjölun. Nuddsárum eftir þjöl er ansi hætt við sýkingum sem jafnvel þarf sýklalyf við.
5. Haltu þig frá efnum sem þurrka upp húðina
Hendur, neglur og naglabönd geta auðveldlega þornað upp vegna vatns, vinds, sápu og alls konar efna eins og t.d. naglalakkseyðis. Flestir mæla því með vettlingum og gúmmíhönskum til að vernda hendurnar og nota ávallt naglalakkseyði án acetone.
6. Haltu höndum frá munni
Þetta er kannski ekki augljóst en munnurinn er fullur af bakteríum og í munnvatninu eru meltingarensím sem brjóta húðina niður. Þú getur fengið sýkingu ef þú nagar neglurnar eða nartar í naglaböndin svo láttu af þeim leiða ávana.
XOXO
Anita