Félagsleg heilsa
Stuðningskerfi hefur sannað gildi sitt hvað heilsuna varðar því rannsóknir (t.d. The Good Health Practices Study) hafa sýnt fram á að góð félagsleg tengsl hafa jákvæð áhrif á lengra og betra líf.
Fólk sem skortir félagsleg tengsl og einangrar sig er líklegra til að veikjast og deyja vegna hjartasjúkdóma, krabbameina, öndunarfærasjúkdómum og meltingarfærasjúkdóma. Áhrifamáttur félagslegra tengsla álanglífi er staðfest með fjölda rannsókna. Fólk úr rannsókninni the Good Health Practices sem var með góð félagstengsl, var í sambúð, átti tíð samskipti við fjölskyldu og vini, voru þátttakendur í safnaðarstarfi, klúbbum eða öðrum félagssamtökum. (Heimild: Dean Ornish, MD, Love and Survival: the scientific basis for the healing power of intimacy, 1999).
Neikvæðar hugsanir koma oftast nær óboðnar. Þær skjóta upp kollinum án fyrirhafnar en það þarf að hafa fyrir því að draga úr þeim. Þrátt fyrir að okkur finnist að allar hugsanir okkar eigi rétt á sér, þá er sannleikurinn sá að flest allar neikvæðar hugsanir eru á skjön við raunveruleikann. Tekið skal fram að sumar neikvæðar hugsanir eiga þó rétt á sér og eru þær fullkomlega eðlileg viðbrögð við aðstæðum sem ekki verður við ráðið. Hér má nefna að eðlilegt er að hafa áhyggjur ef ástvinur er mjög veikur. Hinsvegar er það svo að ef hugur okkar er jákvæður þá er hann mun líklegri til að fara strax af stað með að finna mögulegar leiðir til að reyna að takast á við erfiðleika sem steðja að.
Jákvæðni er mikilsverður eiginleiki í samskiptum og starfi enda hefur það sýnt sig að jákvæðni auðveldar til dæmis umgengni, dregur úr ágreiningi, liðkar fyrir samskiptum, auk þess sem þessi eiginleiki hefur fylgni við heilsuhreysti og langlífi. Andrúmsloft og félagslegar aðstæður mótast mest af fólki og hvernig samskipti þess eru. Félagsleg tengsl á vinnustöðum eru mismunandi, allt frá yfirborðskenndum, formlegum samskiptum einstaklinga til þess að starfsmenn verða að sameina algjörlega krafta sína til þess að geta leyst verkefni. Hin ólíku tengsl milli starfsmanna á vinnustað ráða miklu um það hvort þeir finna til öryggis, hvort þeim finnist vera góður félagsskapur á staðnum og hvort starfið sé metið að verðleikum. Það hvort unnt sé að fullnægja þessum þörfum er háð því hvers konar samskiptaform starfsaðstæðurnar móta. Það ber að hafa í huga þegar metið er hvernig haga skuli vinnu og skipulagi á vinnustað að flestir meta mikils félagsskapinn við starfsfélaga sína.
Félagslegar aðstæður hafa bein áhrif á fíkn og geðheilsu ekki síður en á líkamlega heilsu. Fíkn og ávanabinding getur náð algjörri stjórn á lífinu, en góðu fréttirnar eru þær að þetta er lærð hegðun og hægt er að breyta hegðuninni og venja sig af fíkninni þó það kosti mikil átök í flestum tilfellum.
Af vef heil.is