Ferðaapótekið - hvað er best að hafa með í ferðalög
Litla ferðaapótekið er hugsað fyrir heilbrigt, en fyrirhyggjusamt fólk, sem vill geta mætt óvæntum óhöppum á ferðalaginu, og er óvitlaus hugmynd fyrir flesta, ekki síst fyrir þá sem eru með langvarandi sjúkdóma.
Í þessu sambandi er ráðlegt að ræða við lækni í tæka tíð fyrir ferðalagið, svo þið getið skipulagt í sameiningu, hvort þú eigir að gera einhverjar ráðstafanir, eða hafa einhver sérstök lyf meðferðis.
Þar að auki hvort þörf sé á fyrirbyggjandi undirbúningi eins og ónæmisaðgerðum.
Hvað á ég að hafa með við ferðaveiki?
Ferðaveiki, bíl- flug- og sjóveiki getur lagast af vægum antihistamínum í töfluformi, sem fást í lausasölu. Flest antihistamín valda syfju. Ferðaveikimeðul á helst að taka inn áður en ferðin hefst.
Hvað á ég að hafa með við niðurgangi?
Gott er að búa sig undir ferðaniðurgang ef verið er að ferðast erlendis og þá sérstaklega ef farið er til sólarlanda. Sífellt fleiri taka fyrirbyggjandi töflur eða hylki, með mjólkursýrubakteríum til að tryggja að ekki þurfi að eyða dýrmætum frídögum í að vera veikur af magakveisu. Lyfin sem fást í lausasölu, halda maganum í skefjum, bæði hvað varðar harðlífi og niðurgang. Nauðsynlegt er að byrja að taka lyfin áður en farið er af stað og halda áfram þangað til heim er komið.
Hvað á ég að taka með gegn hægðaóreglu?
Vægt hægðalyf – sem fást í lausasölu – getur verið gott að hafa meðferðis, fyrir þá, sem hætt við að fá harðlífi. Það á við um marga á ferðalögum.
Ef þér er hætt við súrum maga, brjóstsviða og særindum, þegar þú borðar eða drekkur eitthvað sterkt er gott að hafa sýrustemmandi lyf með í ferðaapótekinu.
Ef þú færð bæði uppköst og niðurgang er mikilvægt að drekka vökva ef hægt er. Þetta er sérlega áríðandi, ef börn veikjast. Gosdrykkir eru ágætir sem og orkudrykkir sem merktir eru „rehydrate“ en eru án örvandi efna eins og koffíns. Einnig má setja í litla ferðaapótekið saltmeðal gegn niðurgangi. Þar er um að ræða duft, sem leyst er upp í hreinu vatni og er hægt að fá í lausasölu í lyfjaverslun.
Einnig má nota stemmandi meðul gegn niðurgangi.
Hvað á ég að hafa með við verkjum?
Verki má í allflestum tilvikum meðhöndla með lausasölulyfjum. Þau fást sem töflur, freyðitöflur, stílar og mixtúra, og gagnast oftast við algengum verkjum eins og höfuð-, tann- og tíðaverkjum.
Hvað á ég að hafa meðferðis við sótthita?
Sýkingar, sem valda hita eru oftast af völdum veirusýkinga. Þó að fúkkalyf fáist víða án lyfseðils og tilvísunar læknis er ekki ráðlagt að kaupa þau. Ef þú reiknar með að þurfa á fúkkalyfjum að halda er best að tala um það við lækni áður en þú ferð.
Hvað á ég að hafa með gegn sólbruna?
Í ferðaapótekinu þínu eiga líka að vera nauðsynleg sólvarnarkrem og áburður eða krem til að bera á sig eftir sólbað. Þekkt er að aloe vera hefur gagnast vel við sólbruna.
Einnig gæti verið ráðlegt að hafa meðferðis kláðastillandi eða staðdeyfandi áburð. Til eru sérstök efni, sem gefa góðan árangur við skordýrabitum, bæði til forvarna og meðhöndlunar.
Á ég að hafa eitthvað fleira með?
Almennt sjúkrakassadót gæti einnig komið sér vel, plástur, öryggisnælur, sárabindi og lítið glas af sótthreinsandi vökva til að hreinsa með sár. Sértu að fara þar sem hreinlæti er af skornum skammti og aðgengi að vatni af skornum skammti getur verið ráðlegt að hafa með sér sótthreinsandi blautþurrkur til handþvottar.
Á ég að taka það sama með í hvert sinn?
Það þarf að sjálfsögðu að meta hverju sinni eftir eðli ferðarinnar og því hvert ferðinni er heitið.
En vertu forsjáll og kauptu það sem nauðsynlegt er í hæfilega litlum einingum, þannig að þetta taki ekki of mikið pláss.
Lyfin og hlutirnir í ferðaapótekinu þínu endist í takmarkaðan tíma. Þú getur beðið lyfjafræðinginn að hjálpa þér með að hafa yfirsýn yfir það, og skipta út, þegar það á við.
Heimild: doktor.is