Finnst þér þú vera nóg - Guðni og föstudagshugleiðingin
Ég hef hitt menn sem hafa alla ævi þjáðst vegna þess að þeim finnst þeir vera of smávaxnir. Þeir þyrftu að halda fund með þeim mönnum sem ég hef hitt sem hafa þjáðst því þeim finnst þeir vera of hávaxnir.
Af hverju er þetta?
Af hverju eru fæstar konur ánægðar með eigið útlit, sérstaklega þá líkamshluta sem njóta mikillar athygli í samfélaginu? Af hverju vantar okkur alltaf örlítið stinnari brjóst og oggulítið stærri tippi? Af hverju eru flestir rassar of stórir (nema þeir sem eru of litlir)? Af hverju eiga svona margir í tilfinningasambandi við bingóvöðvann sinn, magann eða brjóstvöðvana?
Við lifum í heimi þar sem engum finnst hann alveg nóg. Það vantar alltaf eitthvað, segjum við, og höldum áfram og höldum áfram og höldum áfram að leita. Og finnum aldrei neitt nema nýjan og meiri skort og nýjan draum til að daðra við.
Athygli er ljós og ljós fer ekki í manngreinarálit, rétt eins og sólin skín jafn skært á illgresi og fegursta blómagarð.