Focaccia
Uppskriftin er úr bókinni KRÆSINGAR sem hægt er að
KAUPA HÉR
Þetta fræga ítalska brauð er létt og mjúkt og hefur allsérstakt dældað yfirborð. Það er úrvalsmeðlæti, t.d. með súpu eða öðrum mat, en líka frábært í samlokur. Notið hefðbundnu útgáfuna eða þá krydduðu með rósmaríni eða basilíku. Hægt er að baka brauðið hvort sem er, þykkt eða flatt og þunnt, það fer eftir hve lengi það hefast.
mjólkur-, eggja- og hnetulaust
400 g hveiti auk viðbótar til að strá yfir
2 tsk salt
1 ½ msk sykur
1 msk þurrger
5 msk ólífuolía auk viðbótar til að pensla
1 msk sítrónusafi
250 ml volgt vatn eða eins og með þarf
1 tsk gróft sjávarsalt
undirbúningstími 5–10 mínútur
bökunartími 30 mínútur
gerir 1 kringlóttan hleif
1 Setjið hveiti ásamt salti og sykri í skál eða matvinnsluvél.
2 Blandið geri saman við, þá 3 msk af olíu, sítrónusafa og volgu vatni. Hrærið saman og hnoðið í höndum á hveitibornu borði í um 5 mínútur. Einnig má láta matvinnsluvélina um verkið. Deigið á að vera mjúkt og aðeins klesst.
3 Penslið með olíu hringlaga form, um 23 cm í þvermál. Þrýstið deiginu létt með blautum höndum í formið og skvettið nokkrum vatnsdropum yfir svo skorpan verði mjúk. Breiðið plastfilmu lauslega yfir og látið hefast á hlýjum stað í um 30 mínútur eða þar til deigið hefur tvöfaldast, eða lengur ef þið viljið þykkt brauð. Athugið að glútensnauða útgáfan lyftir sér ekki eins vel og hin.
4 Hitið ofninn í 220°C.
5 Berið hveiti á vísifingur og ýtið grunnt ofan í deigið með reglubundu millibili þannig að litlar holur myndist. Skvettið aftur vatnsdropum yfir, þá afganginum af olíunni og stráið að lokum er grófa saltinu yfir.
6 Skvettið nokkrum vatnsdropum tvisvar yfir brauðið meðan á bakstri stendur.
7 Bakið þar til brauðið er brúngullið á lit eða í um 30 mínútur og tómahljóð heyrist þegar bankað er létt í það og látið brauðið kólna á grind.
8 Látið brauðið kólna á grind. Breiðið rakan hreinan klút yfir.
glútensnautt einnig mjólkur- og hnetulaust
Fylgið uppskriftinni til vinstri en notið glútensnautt mjöl í stað hveitis og bætið 1 msk af xanthan gúmmíi við í 1. lið. Blandið pískuðu eggi saman við, aukið vatnið um 80 ml þannig að það verði 330 ml og hrærið út í. Deigið á að vera klesst. Þrýstið því ofan í olíuborið mót og jafnið yfirborðið með blautum höndum. Bakið í 45–50 mínútur.
TILLAGA Ef gera á rósmarín- og laukfoccacia er farið eftir annarri hvorri uppskriftinni en 1 tsk af hvítlaukssalti sett í stað salts. Sneiðið 2 lauka í þunnar sneiðar, leggið í kalt vatn og látið standa í 15 mínútur. Hellið vökvanum af, dreifið lauknum yfir deigið ásamt 2 msk af fersku söxuðu rósmaríni. Skvettið olíudropum yfir deigið og stráið að lokum grófu salti jafnt yfir. Önnur vinsæl focacciauppskrift er með sólþurrkuðum tómötum, ólífum og ferskri basilíku. Fylgið annarri hvorri uppskriftinni en bætið 2 msk af ferskri saxaðri basilíku út í deigið. Hellið olíunni af 4 sólþurrkuðum tómötum og saxið þá smátt, sneiðið 6 svartar steinlausar ólífur. Þegar deigið hefur verið sett í olíuborið form, stráið þá ólífunum og sólþurrkuðu tómötum yfir og 6 rifnum basilíkulaufum. Skvettið nokkrum vatnsdropum yfir og fylgið uppskriftinni áfram, sbr. 3. lið.