Fótaumhirða barna getur skipt sköpum
Í hvernig skóm er barnið þitt? Hvenær settirðu það fyrst í skó? Í hvernig sokkum er barnið?
Svörin við þessum spurningum skipta miklu segir Eygló Þorgeirsdóttir fótaaðgerðafræðingur, en hún telur að ýmis fótamein geti hrjáð barnið síðar meir og jafnvel alla ævi ef foreldrar passi ekki upp á skófatnað og sokka sem barnið klæðist á fyrstu árum ævi sinnar.
Hún ráðleggur foreldrum að hafa barnið eins mikið berfætt og hægt er.
Eygló segir að foreldrar eigi að nota eins lítið og hægt er af skóm á barnið fyrstu tvö árin. „Það er allt of algengt að foreldrar klæði börn sín í skó, með hörðum botni sem halda við ökklann, meðan þau eru enn að skríða. Barnið er mun stöðugra í skónum en ella og reynir því fyrr en það hefur þroska til, að standa í fæturna. Í framhluta fótarins eru allt að þrjátíu bein sem eru brjóstkennd og mjúk fyrstu tvö árin og því mjög sveigjanleg. Með því að setja barnið of snemma í slíka skó er hætta á að bein, vöðvar og sinar þjálfist og þroskist ekki eðlilega og aflagist síðar á ævinni. Barnið getur átt á hættu að ná ekki nógu góðu jafnvægi og getur misst það úthald og styrk sem það hefði haft ef fóturinn hefði fengi að þjálfast og þroskast eðlilega. Þetta getur síðan haft slæm áhrif hreyfigetu og líkamlega heilsu einstaklingsins um alla framtíð. Eygló bendir ennfremur á að foreldrar verði að passa upp á að klæða börnin í góða sokka. „Foreldrar þurfa að gæta vel að því að klæða barnið aldrei í of litla sokkabuxur eða sokka. Oft minnka sokkabuxur við fyrsta þvott og þegar foreldra klæða barnið síðan í buxurnar hættir þeim til að taka um mittistrenginn á og hífa þær vel upp í mittið. Sokkurinn þrengir að tám barnsins, sem mótast eins og leir fyrstu árin og getur skekkt þær. Ég ráðlegg foreldrum að klippa frekar neðan af of litlum sokkabuxum og nota þær sem gammasíur.”
Hvernig eiga skór og sokkar þá að vera?
Eygló segir mikilvægt að foreldra vandi vel valið þegar þeir kaupi skó á barnið sitt. „Síðustu áratugina hafa skór mikið breyst. Í dag er hægt að fá svo „góða skó” að barnið hreyfir nánast ekkert vöðva og sinar í fætinum þegar það notar þá. Þetta eru gjarnan skór sem halda vel við ökklann og eru með þykkum sóla. Foreldrar ættu að varast að kaupa slíka skó. Best er að kaupa fótlaga skó sem eru ekki með of þykkum botni. Skórnir þurfa líka að vera mátulega stórir. Ef hægt er að setja fingur aftan við hælinn er nægilegt rými fyrir fótinn. Einnig þarf að vera nóg pláss fyrir tærnar og því eru skór sem eru mjóir að framan ekki góðir fyrir barnið. Ef saumar eða samskeyti eru á skóm ættu foreldrar að þreifa inn í skóna og athuga hvort þeir finni fyrir þeim, en hvorutveggja getur sært barnið. Eygló bendir ennfremur á að merkjaskór séu ekki alltaf besta varan. „Skórnir þurfa fyrst og fremst að vera sveigjanlegir. Gömlu gúmískórnir eru til dæmis ágætur kostur. Það er ekki hægt annað en að hreyfa alla vöðva og sinar í fætinum í slíkum skóm sem er gott fyrir barnið. Ég man eftir gömlu körlunum í sveitinni, þegar réttað var, sem hlupu upp um fjöll og fyrnindi, íklæddir ullarsokkum og gúmískóm. Þeir áttu ekki í vandræðum með að ná jafnvægi sem er mjög algengt vandamál meðal barna í dag. Strigaskór með þunnum botni eru líka ágætir fyrir börnin. Foreldrar ættu aldrei að freistast til að láta barnið ganga í of litlum skóm. Fótur barnsins getur auðveldlega aflagast í of þröngum skóm. Það sama er hægt að segja um sokka, en þeir þurfa að vera mjúkir og rúmir. Passa þarf upp á að saumarnir á sokkunum séu ekki þykkir því það getur sært barnið.”
Unga fólkið með óþjálfaða fæturEygló hefur starfað sem fótaaðgerðafræðingur í þrjátíu ár og segir að fótamein séu mun algengari nú meðal barna og ungs fólks en áður. „Síðustu áratugina hafa fætur ungs fólks frá hæl til táar breyst mikið og ég er að fá börn allt niður í þriggja ára aldur sem þjást af fótameinum. Ég álít að fæturnir séu mun óþjálfaðri en áður og tel að þeir hafi stundum aflagast vegna hjálpartækja á fyrstu æviárunum eða skófatnaðar. Í kringum 1970 kom upp geysisterk alda þar sem áherslan var fyrst og fremst á að vernda fót barnsins með „góðum skófatnaði” en ekki á að þjálfa fótinn. Þetta er enn ríkjandi í dag og getur því miður haft óæskileg áhrif. Á sama tíma urðu ýmis hjálpartæki eins og hoppurólur og göngurgrindur vinsæl og börnin fóru gjarnan að ganga fyrr en áður. Þetta hafði hinsvegar óæskileg áhrif á fætur barnanna fyrsta árið því þau náðu ekki þeim styrk og hreyfigetu í framhluta fótarins sem skyldi. Síðar á lífsleiðinni geta þessir einstaklingar átt hættu á að lenda í vandamálum vegna fótameina og þurfa að leita sér hjálpar. |
Oftast eru vandamálin tengd tánum, sérstaklega stóru tánni sem er öðruvísi byggð en hinar, með tveimur táliðum í stað þriggja. Unga fólkið á erfitt oft með að hreyfa þessa tá og því virkar hún ekki sem skyldi þegar gengið er. Hún nuddast óeðlilega upp við aðrar tær eða skó og holdið í kringum hana bólgnar og síðar myndast gjarnan ígerðir og ofholgun. Fólk telur þetta hinsvegar oft vera inngróna nögl og reynir að klippa hana langt niður með hliðinni sem getur aftur orsakað að nöglin vex aftur inn í bólgna holdið sem þar er fyrir. Þetta getur því orðið vítahringur. Önnur algeng vandamál sem geta komið upp vegna þess að fæturnin eru ekki í nógu góðri þjálfun eru tábergssig og ilsig. Ilsig einkennist af því bogi ristabeinanna sígur niður sem skapar m.a. vandamál við ökklann og eins og nafnið gefur til kynna sígur tábergið niður þegar fólk þjáist af tábergssigi. Hvorutveggja getur valdið því að hreyfing fótarins breytist. Það getur síðan orsakað styttingu á sumum sinum í fætinum og lengingu á öðrum og fólk þreytist fyrr en ella og á erfiðara með gang.”
Hjálp
Eygló segir að fótamein geti verið af ýmsum toga og best sé að leita til sérfræðings til að fá úr því skorið hvers kyns sé. „Fótaaðgerðafræðingar geta hjálpað í mörgum tilfellum og gjarnan er þá notast við meðferðir eins og að aðskilja tær sem nuddast saman með silíkoni eða meðferðir af öðrum toga. Stundum þarf fólk að leita til læknis til dæmis vegna meina í tánöglum og þá er reynt að fjarlægja naglrótina að hluta. Þetta getur samt falið í sér þá áhættu að nöglin vaxi aftur og þá getur hún verið klofin eða sködduð á annan hátt. Oft er hinsvegar hægt að laga mein í tánöglum án skurðaaðgerðar.”
Hugum vel að undirstöðunni
Eygló bendir á að margt sé hægt að gera til að koma í veg fyrir að fótamein komi upp hjá börnum. „Foreldrar ættu að leyfa börnum sínum að vera eins mikið berfætt og hægt er. Sértaklega fyrstu tvö árin. Með því fær barnið þá þjálfun sem það þarfnast. Gott er að nudda fót barnsins og er ágætt að venja sig á það þegar barnið er klætti í og úr sokkum eða þegar það kemur úr baði. Fóturinn fær þannig örvun og blóðið flæðir fram í hann. Þurrka skal vel á milli tánna þegar barnið kemur úr baði því ef raki er þar á milli getur myndast sár. Foreldra verða einnig að vara sig á að klippa neglur barnanna ekki of langt niður. Það getur skapað hættu á inngrónni nögl. Þeir þurfa fyrst og fremst að vera meðvitaðir um mikilvægi þess að barnið fái þá þjálfun sem er nauðsynleg fyrir heilbrigði þess. Það getur skipt sköpum fyrir líkamlega heilsu barnsins um alla framtíð að fóturinn fái að ná styrk og sé þjálfaður fyrstu æviárin.” Undirstaðan skiptir meginmáli segir Eygló að lokum.
Farðu í táleikfimi daglega með barninu þínu
|
Grein af vef doktor.is