Fræðslufundir Framfara – Hollvinafélags Millivegalengda og Langhlaupara
Haust og vetur 2013, Íþróttamiðstöðin Laugardal við Engjaveg 3. hæð
24. September 2013 Hljópstu fram úr þér ? Hvað er til ráða
Kl: 20:00 – 21:15 Salur E
Róbert Magnússon, sjúkraþjálfari hjá Atlas endurhæfingu.
Farið verður yfir helstu þætti er snúa að meiðslum hlaupara en sjónunum verður ekki síður beint að forvörnum og þeim leiðum sem fara má til að sporna gegn álagstengdum meiðslum. Róbert hefur unnið við greiningu, meðhöndlun og endurhæfingu íþróttameiðsla frá því árið 2005 en hann hefur síðan þá starfað sem sérfræðingur á sviði íþróttasjúkraþjálfunar. Þrátt fyrir að sérsérsvið hans eru axlar- og hnéendurhæfing hefur Róbert sinnt fjöldanum öllum af íþróttamönnum úr öllum greinum íþrótta og meðal annars unnið mikið með Anítu Hinriksdóttur, Kára Steini Karlssyni og Gunnari Páli Jóakimssyni þjálfara þeirra og fjölda annarra hlaupara á sviði forvarna gegn meiðslum og álagstengdum einkennum.
24. Október 2013 Einkenni góðs afreksmanns
Kl: 20:00 – 21:30 Salur E
Haukur Ingi Guðnason, BS. í sálfræði og knattspyrnumaður
Einar Vilhjálmsson, spjótkastsþjálfari og fyrrverandi afreksmaður í spjótkasti
Fjallað verður um þá líkamlegu og andlegu þætti sem skapa góðan afreksmann. Efnið er í senn vísindalegt en einnig mjög huglægt þar sem reynsla einstaklinga segir oft mikið og er á við margar vísindagreinar. Haukur Ingi Guðnason sérhæfir sig í íþróttasálfræði og stundar hann nám við Háskóla Íslands auk þess sem hann hefur leikið knattspyrnu erlendis og á Íslandi um árabil. Einar Vilhjálmsson er fyrrverandi afreksmaður í spjótkasti og keppti á sínum tíma á fjölda Ólympíuleika, heims- og evrópumóta og náði þar stórglæsilegum árangri. Einar á enn Íslandsmetið í spjótkasti karla og þjálfar nú arftaka sína í spjótkasti hjá Frjálsíþróttadeild ÍR og FH.
28. Nóvember 2013 Grunnur að glæstum árangri
Kl: 20:00 – 21:00 Salur E
Gunnar Páll Jóakimsson, íþróttafræðingur og þjálfari
Aníta Hinriksdóttir er kunn nánast öllum Íslendingum en hún hefur náð gríðarlega góðum árangri á hlaupabrautinni undanfarin 2 ár, er þekkt víða um Evrópu og er nú einn helsti afrekmaður Íslands í íþróttum þrátt fyrir ungan aldur. Aníta hefur einnig vakið eftirtekt fyrir látlausa og einlæga framkomu jafnt utanbrautar sem innan. Gunnar Páll Jóakimsson íþróttafræðingur hefur verið aðalþjálfari Anítu sl. 2 ár og saman hafa þau skotist upp á stjörnuheim frjálsíþróttanna. Gunnar Páll mun segja frá æfingum Anítu sl. ára, ævintýralegu sumrið árið 2013 og framtíðarsýninni sem er skýr og metnaðarfull.
Um Framfarir.
Framfarir eru hollvinafélag millivegalengda- og langhlaupara sem hefur það markmið að styðja við bakið á langhlaupurum á Íslandi með fræðslu og viðburðum. Leggja þannig grunninn að frábærum árangri íslenskra hlaupara í lengri vegalengdum í framtíðinni samhliða því að auka meðvitund um það hversu góð heilsurækt felst í hlaupaþjálfun og útiveru.
Aðgangseyrir: 1.000 kr.
Nánari upplýsingar veitir
Fríða Rún Þórðardóttir, formaður Framfara, fridaruner@hotmail.com