Frelsið, hitinn og möguleikar - hugleiðing dagsins frá
Dúnúlpan og Fyrirheitna landið
Ég átti mér skýra sýn sem krakki. Hún átti rætur sínar í því að á Íslandi var alltaf kalt og ég þurfti að vera miklu meira klæddur en ég vildi. Ég var dúðaður í dúnúlpu og mér leið ekki vel.
Þannig fæddist hugmyndin um Fyrirheitna landið. Ég sá fyrir mér sólríkar aðstæður þar sem ég upplifði frelsi, hita og möguleika. Mig dreymdi um aðstæður þar sem ég var ekki heftur eða aðþrengdur; þar sem ég gæti varið dögunum léttklæddur, léttur á fæti, sitjandi á handriðinu í bol og stuttbuxum.
Áður en ég vissi af var ég búinn að skapa þessar aðstæður – reyndar tuttugu árum seinna, þegar ég flutti í hitann vestanhafs. En sýnin var eldgömul og byggði á þrá þrettán ára unglings sem hljóðaði nokkurn veginn svona:
„Ég vil ekki vera hér. Hvar vil ég vera?“