Full kistan af brakandi ferskum náttúruafurðum
Full kistan af brakandi ferskum náttúruafurðum og grunnur lagður að aðventuskreytingum.
Uppskeran kemur í hús að hausti með tilheyrandi undirbúningi. Gott er að eiga nokkrar spínatbökur, kartöflubuff, ásamt hindberjum, jarðarberjum og íslenskum berjategundum í bústið og eftirrétti. Sjóða ávaxtasultur og forsoðið grænmeti í frysti. Munum eftir hinni íslensku flóru sem hægt er að nýta í te og kryddblöndur og með haustinu spretta fjallagrösin, kúmen og einiber ásamt öllum hinum berjategundunum, einnig er sveppatínslan heil athöfn útaf fyrir sig. Krækiber er hægt að setja gegnum safapressu og fá hreinan ávaxasafa og geyma í frysti, tína bláber og aðalbláber setja í litla poka og beint í frystinn.
Það er yndislegt að skreppa í skógargöngur, smella nettum klippum og pokum í bakpokann og safna í te, tína köngla, vefja birkikransa og huga örlítið að aðventunni.
Ég vil mana sem flesta að prufa örlitla ræktun næst vor. Það er nefnilega skemmtilegt að taka á móti haustinu með smá lager úr eigin ræktun ásamt, „dass“ af íslenskri náttúru í krydd og jurtate, til að nýta um veturinn. Gróðurvinna og grasaferðir er góð hreyfing sem lyftir sálinni og liðkar stoðkerfið. Allar árstíðir hafa sinn sjarma, hauslitirnir skarta sínu fegursta núna og það er yndislegt að anda að sér hreina útiloftinu, tína smá beitilyng, reyniviðarber, köngla og vefja sér birkikrans sem verða að fallegum skreytingum á aðventu.
Laufey Sigurðardóttir
Næringarrekstrarfræðingur og heilsunuddari