Gerðu lagalista áður en þú færð Alzheimer
Svava Aradóttir, framkvæmdastjóri FAAS, Félags áhugafólks og aðastandenda Alzheimersjúklinga og annara skyldra sjúkdóma segist ekki vita til að músíkþerapíu hafi verið markvisst beitt hér á landi við þjálfun fólks með heilabilun.
Hins vegar sé tónlist mikið notuð í dagþjálfun þessa hóps.„Það er alveg ótrúlegt hvað tónlist getur gert fyrir Alzheimersjúklinga og fólk með skylda sjúkdóma.
Allt í einu man fólk sem ekki getur lengur boðið góðan daginn texta, og ég hef séð mann sem ekki gat lengur borðað hjálparlaust spila á píanó. Þegar hann settist við hljóðfærið rifjaðist upp fyrir honum það sem hann áður kunni,“ segir hún og heldur áfram.
„Ég ráðlegg öllum að byrja snemma á að gera lista með uppáhaldslögunum sínum, því það veit enginn hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég get til dæmis ekki ætlast til þess ef ég fer á hjúkrunarheimili að ungt fólk sem þar kann að vinna viti að uppáhaldslagið mitt er Popplag í G-dúr. Lag sem hefur veitt mér ómælda gleði í 35 ár. Við eigum flest okkar uppáhaldslög, lög sem færa okkur vellíðan og góðar minningar tengjast. Þess vegna er svo mikilvægt að skrifa niður lagalista ef við missum minnið af einhverjum orsökum,“
Til að lesa þessa grein frá lifdununa.is smelltu þá HÉR.