Fara í efni

Geta hagsmunir neytenda og framleiðenda farið saman?

Fyrirtæki sem þróast ekki og aðlagar ekki sinn rekstur að breytingum á hugsunarhætti og lífstíl, dragast aftur úr.
Ölgerðinn er 101 árs
Ölgerðinn er 101 árs

Í nútíma þjóðfélagi hafa neytendur úr miklu vöruframboði að velja og gera sífellt meiri kröfur sem m.a. eru byggðar á auknu upplýsingaflæði.  Á flestum mörkuðum er ekki lengur eingöngu keppt í verði heldur skipta gæði, þjónusta og samfélagsábyrgð nú sífellt meira máli. Þau fyrirtæki sem lifa af í sterku samkeppnisumhverfi eru þau fyrirtæki sem aðlaga sig að kröfum á hverjum tíma og reka fyrirtæki sín af ábyrgð gagnavart samfélaginu þ.e neytendum, hagsmunaðilum, eftirlitsaðilum, umhverfinu, starfsfólki og eigendum.  


Fyrirtæki sem þróast ekki og aðlagar ekki sinn rekstur að breytingum á hugsunarhætti og lífstíl, dragast aftur úr og verða undir í samkeppninni. Valið er hjá neytendum og er úr nægu að velja. Það er þó ekki nóg að aðlaga vöruframboð eftir eftirspurn heldur verður einnig að tryggja að neytendur geti á sem bestan hátt tekið upplýstar ákvarðanir um val. Ölgerðin Egill Skallagrímsson er eitt stærsta sölu og markaðsfyrirtækið á landinu og berum við því mikla ábyrgð. Við eins og aðrir finnum fyrir ákveðnum breytingum á neyslu t.d þar sem sala á sykruðum gosdrykkjum er að dragast saman á meðan neysla á kolsýrðu vatni eykst. Breytt vöruúrval hjá okkur verður til þess að við erum ekki eins viðkvæm fyrir neyslubreytingum og getum betur mætt þeim. Það er markmið okkar og framtíðarsýn að verða fyrsta val neytenda og viðskiptavina og til þess að ná því verðum við að haga framboði í samræmi við eftirspurn og tryggja að gæðum sé aldrei fórnað. Gæðum á vörum í gegnum allt framleiðsluferlið og gæði í sölu og kynningum á vörum þ.a.m. upplýsingar til neytenda. Kröfur um upplýsingar til neytenda hafa aukist undanfarin ár sem er gott bæði fyrir framleiðendur/innflytjendur og neytendur. Neytendur geta frekar tekið 

upplýstari ákvarðanir og merkingar og eftirlit veitir fyrirtækjum aukið aðhald sem hlýtur að bæta enn frekar framleiðsluhætti.

Samfélagsábyrgð

Fyrirtækjarekstur snýst ekki bara um EBITDA og fjárstreymi. Jim Collins höfundur bókarinnar ,,Good to Great“ hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði ,,í góðum fyrirtækum verður hagnaður og sjóðsstreymi eins og blóð og vatn fyrir heilbrigðan líkama, bæði lífsnauðsynlegt  en ekki tilgangur lífsins“ Fyrirtæki sem eru horfa fram á veginn þurfa æðri tilgang og þurfa að starfa með leyfi frá samfélaginu og af ábyrgð.

Einföld skýring á samfélagsábyrgð er það sem fyrirtæki leggur til samfélagsins umfram það sem því ber lagaleg skylda til að gera. Þetta snýr að öllum þáttum rekstrar og þess að hugsa lengra en til næsta ársfjórðungs.

Á 100 ára afmæli Ölgerðarinnar árið 2013 settum við okkur 100 ný markmið í samfélagsábyrgð.  Merkingar samkvæmt viðmiðunnarneyslugildi eru eitt þessara 100 atriða sem ýmist snúa að umhverfinu, samfélaginu, markaðnum eða fyrirtækinu. Hvert fyrirtæki verður að finna hvar samfélagsábyrgð þess liggur út frá rekstri, vöruframboði og sambærilegum þáttum.

Fyrir fyrirtæki eins og Ölgerðina sem framleiðir m.a. vörur eins og gosdrykki og bjór og flytur inn snakk og sælgæti er þetta enn meiri áskorun og í raun enn ríkari krafa lögð á samfélagsábyrgð.  Framangreint eru allt 

vörur sem geta haft neikvæð áhrif sé þeirra neitt í óhófi. Því leggjum við okkur fram við að þekkja hvar ábyrgð okkar liggur og bregðast við.  Þess vegna er það heilbrigð skynsemi að sýna ábyrgð og hluti af heilbrigðum fyrirtækjarekstri.  Við verðum að skilgreina markmið okkar í víðara samhengi en áður og sem hluta af því samfélagi sem við ætlum að starfa í næstu 100 árin. Samfélagsábyrgð er því grundvöllur góðs rekstrar.

Niðurstaða

Sama í hvernig rekstri fyrirtæki eru þá skiptir tryggð viðskiptavina miklu máli. Ef fyrirtæki gera rétt gagnvart sínum viðskiptavinum og neytendum þá er það líklegra til að tryggja langtíma viðskipti og gott viðskiptasamband. Fyrirtæki eru því líklegri til að lifa lengur ef þau starfa með leyfi neytenda og bregðast við þörfum og eftirspurn. Hagsmunir neytenda eru því svo sannarlega hagsmunir fyrirtækja sem starfa af ábyrgð og horfa fram á veginn.

Höfundur: Erla Jóna Einarsdóttir, gæða og öryggisstjóri hjá Ölgerðinni Egill Skallagrímsson

Heimildir: Good to great; Jim Collins