Getur kæfisvefn aukið hættu á beinþynningu?
Kæfisvefn (obstructive sleep apnea, OSA) er algengt vandamál tengt öndun í svefni og benda rannsóknir á að tengsl séu milli þess og aukinnar hættu á beinþynningu og óheilnæmum efnaskiptum í beinum1,2.
Kæfisvefn hefur einnig verið tengdur við aðra sjúkdóma s.s. offitu, of háan blóðþrýsting, hjartasjúkdóma og þunglyndi og þess vegna er mikilvægt að greina vandann og meðhöndla.
Hvað er kæfisvefn (OSA)?
Kæfisvefn einkennist af tíðum, stuttum og grunnum öndunarlotum (jafnvel öndunarstoppi) í svefni. Súrefnisskorturinn sem verður vegna þessa getur haft slæm áhrif á líffærakerfin, þ.m.t. beinin, sem getur leitt til þess að beinin verða veikari en ella sem veldur síðan aukinni hættu á beinþynningu. Þótt engar vísindalegar rannsóknir séu til sem sanna að kæfisvefn valdi beinþynningu, þá hafa rannsóknir Dr. Kai-Jen Tien sem gerðar voru í Taiwan sýnt fram á að fólk sem þjáist af kæfisvefni er 2,7 sinnum líklegra til að fá beinþynningu1. Prófessor Tien segir:
„Eftir því sem fleira fólk greinist með kæfisvefn um allan heim (…) verðum við að gefa meiri gaum að tengslum kæfisvefns og beinheilsu svo við getum bent á leiðir til að koma í veg fyrir beinþynningu.“
Þekkt einkenni kæfisvefns eru:
- Háar hrotur
- Höfuðverkur (sérstaklega á morgnana)
- Eirðarleysi eða pirringur að næturlagi
- Svefnhöfgi á daginn
Hvernig er hægt að meðhöndla kæfisvefn?
Kæfisvefn er meðhöndlaður með breytingum á lífsstíl, munnstykkjum, tækjum sem auðvelda öndun og skurðaðgerðum. Algengasta meðferðin fyrir fullorðna sem þjást af alvarlegum kæfisvefni er sú að nota tæki sem viðheldur stöðugum, jákvæðum þrýstingi í öndunarveginum (continuous positive airway pressure CPAP) 3. Tækið eykur loftþrýsting í hálsinum þannig að öndunarvegurinn fellur ekki saman við innöndun, auk þess þarf viðkomandi að sofa með ákveðna grímu eða maska sem passar yfir munn og nef eða bara yfir nefið.
Lífstílsbreytingar sem skipta mestu eru:
- Að léttast (þ.e.a.s. ef viðkomandi er of þungur)
- Líkamsþjálfun sem felst í þungaberandi æfingum
- Að sofa á hlið fremur en á bakinu
- Forðast alkóhól, róandi lyf og vöðvaslakandi lyf
- Minnka neyslu á sætindum og sætum drykkjum
Þessar breytingar eru mjög jákvæðar, ekki einungis sem meðferð vegna kæfisvefns heldur einnig sem daglegar venjur til að viðhalda líkamlegri og andlegri heilsu og minnka hættu á beinþynningu.
Heimild: beinvernd.is