Góð hugleiðing frá Guðna á mánudegi
ALLT sem fer ofan í þig er ást
Fyrir nokkrum árum kom til mín maður sem þurfti að pína ofan í sig eitraðan kokteil. Hann kom til mín að áeggjan eiginkonu sinnar sem hafði kynnst hugmyndum mínum. Hann var smitaður af HIV en ónæmiskerfið var enn ekki orðið veikt og einkennin fá og veigalítil. Ég talaði við hann í tvo tíma um það hvað við þyrftum að gera til að öðlast styrk og jafnvægi. Hann hlustaði af athygli og virtist meðtaka það sem ég hafði fram að færa. Ég sagði honum ítrekað að ég vildi samt ekki vinna með honum nema hann vildi vinna með mér; að hann gæti ekki farið í gegnum þessa meðferð hjá mér fyrir konuna sína og frumkvæðið þyrfti að koma frá honum sjálfum til að árangur næðist.
Þegar ég heyrði loksins frá honum, einu ári síðar, var hann orðinn illa veikur. Ég tók honum fagnandi og gaf lítið út á það þótt hann væri afsakandi og hálf skömmustulegur – sagði að betra væri að fá hann tilbúinn en hálfan hjá mér, þótt hann væri lemstraður.
Við byrjuðum að æfa og vinna saman og hann var mjög illa fyrir kallaður, bæði á líkama og sál. Eftir nokkra daga ræddi ég veikindin við hann og spurði hvað honum þætti verst; hvað færi mest með hann:
„Lyfin! Það eru helv ... lyfin, þessi kokteill sem mér finnst helst vera eins og eiturefnaúrgangur og ég þarf að gleypa ofan í mig á hverjum einasta degi! Ég píni þetta í mig með ávaxtasafa og verð svo veikur á eftir, mér verður flökurt og ég verð lystarlaus og ómögulegur.“„Þetta er ekki flókið mál, við björgum þessu,“ sagði ég. Hann horfði steinhissa á mig og spurði hvað ég ætlaði að gera. „Ég ætla ekki að gera neitt. Þú ætlar að breyta þessu. Hlustaðu nú vel. Lyfin eru geislar guðs. Þúsundir manna hafa unnið að því í áratugi að upphugsa, þróa og framleiða þessi lyf. Fjöldi lækna hefur prófað þau á fjölmörgum sjúklingum. Í þetta ferli hefur farið ómæld orka, bæði mannafl og fjármunir. Allir sem hafa komið að því að skapa þennan kokteil hafa starfað í einlægni; þeir hafa gert það til að bjarga mannslífum. Ég get lofað þér því að ef þú opnar hjarta þitt gagnvart lyfjunum og blessar þau fyrir inntöku munu þau hafa önnur áhrif.“
Maðurinn horfði hissa á mig eftir þessa löngu ræðu áður en hann sagði:
„Ég held ég skilji hvað þú átt við.“
Tveimur dögum seinna kom maðurinn sposkur til mín.
„Ég sé þér líður betur,“ sagði ég. „Af hverju er það?“
„Ég veiti lyfjunum fulla athygli þegar ég tek þau inn, blessa þau fyrir að vilja lækna mig og er fullur þakklætis í þeirra garð,“ svaraði maðurinn. „Og mér hefur ekki orðið flökurt í tvo daga.“
Upp frá þessum degi byrjaði bati mannsins.
Það voru ekki lyfin sem voru eitruð heldur mjög ýkt viðnám hans gagnvart þeim. Í stað þess að berjast gegn þeim á grundvelli viðnáms tók hann þeim fagnandi, blessaði þau og þannig gátu lyfin náð sinni fullu virkni, í samvinnu við manninn og tíðni hans.