Guðni skrifar um næringuna og meltinguna í hugleiðingu dagsins
Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar.
Sólin skín af jafn miklum ákafa á fegursta blóm og illgresið í kringum það. Þess vegna felur fyrsta skrefið í sér að æfa sig í að veita athygli – til að skilja að athygli er þitt val sem þú hefur vald yfir á hverjum degi.
Af öllum okkar daglegu aðgerðum eru næringin og meltingin áhrifamestar, bæði til vansældar og velsældar. Þess vegna notum við fyrstu vikuna til að fylgjast með því hvernig við nærum okkur.
Við æfum okkur líka í að tyggja. Við finnum fyrir matnum í munninum, veitum fullri vitund í munninn, tyggjum hægt og rólega og veitum líkamanum rými til að starfa á sem heilnæmastan hátt.
Við gerum þetta til að gangast inn á þann sannleika að maturinn sem við setjum ofan í okkur mun á endanum breytast í okkur sjálf – næringin sem við innbyrðum er byggingarefni líkamans og líkaminn er farartæki sálarinnar. Við tyggjum rólega til að sýna líkamanum og sálinni verðskuldaða virðingu. Við nærum okkur í vitund því að þannig verður hver máltíð að ástarjátningu í verki.