Guðni skrifar um peninga í hugleiðingu dagsins
Allt er orka – líka peningar.
Við sendum alltaf frá okkur skilaboð sem annaðhvort laða að okkur orku eða ýta henni frá okkur. Slagkraftur hjartans ræður því hversu sterk skilaboðin eru. Ef við erum ekki að laða að okkur fjármagn er ástæðan einföld – við höfum ekki heimild til þess. Það verður engin velsæld án peninga.
Við erum ekki að tala um gróða eða græðgi – við einfaldlega virðum peninga sem orkuna sem þeir eru. Við tengjum ekki peninga við velsæld; við tengjum velsæld við peninga. Á þessu er eins mikill munur og á svörtu og hvítu. Þeir sem halda að peningar séu velsæld – þeir geta ekki verið í velsæld.
Við eigum að vingast við peninga, hafa þá fyrir höndunum og skilja að peningar myndu leita til heimkynna sinna og fyrri eigenda ef þeim yrði fleygt úr flugvél. Peningar eru félagsverur. Af hverju ættu peningar að leita til þeirra sem fara illa með þá og tala illa um þá? Af hverju ættu peningar að velja að vera með þeim sem vilja þá ekki eða þykjast ekki vilja þá?