Fara í efni

Guðni skrifar um súrefnið í hugleiðingu dagsins

Guðni skrifar um súrefnið í hugleiðingu dagsins

Súrefni er litarlaust, lyktarlaust og bragðlaust efni. Það hefur þann eiginleika að geta sameinast flest öllum frumefnum og er forsenda brennslu líkamans. Súrefni er einnig nauðsynlegt þegar kemur að meltingu, sem er í raun önnur gerð líkamsbrennslu. Með öðrum orðum er hlutfall súrefnis og næringar í frumunum lykillinn að umbreytingu orkunnar.

Súrefni vinnur orku úr fæðunni sem gefur okkur orku til að lifa. Þetta ferli nefnist oxun, sem þýðir sameining súrefnisfruma við efnislegar sameindir. Frumur oxast í líkamanum og þær sjá okkur fyrir næringu, hita og hreinsun.

Í súrefninu liggur lífsneistinn sem kveikir bál líkamans. Lífið er eldur og því meira sem við öndum, því betur brennur eldurinn. Jöfn og djúp öndun skapar hægari og sterkari hjartslátt og jafnar og hægir á heilasveiflum.

Slík öndun hefur róandi áhrif á líkamann, sem yfirleitt endast langt umfram hefðbundna líkamsrækt. Jöfn og djúp öndun hjálpar líkamanum einnig að halda í skefjum eyðingu og losar hann við óæskileg efni.