Gulrætur eru uppáhald asnans - Hugleiðing Guðna á laugardegi
Markmið án tilgangs er aðeins falleg gulrót
Og gulrætur eru uppáhald asnans. Og líka skortdýrsins – því á meðan gulrótin er elt á röndum hefur skortdýrið nóg svigrúm til að athafna sig og styrkjast, og þegar gulrótinni er náð koma ævinlega í ljós vonbrigðin yfir því að gulrótin veitti ekki þá hamingju sem vonast var eftir. Sem ýtir enn frekar undir vöxt skortdýrsins.
Tilgangur er einfaldlega grunnástæða – ástæða þess að þú gerir það sem þú gerir. Viljum við vona og væla í stað þess að skapa markvisst og valda af ábyrgð?
Á hvaða forsendum gerum við það sem við gerum?
Viljum við fara í ræktina af því okkur finnst við of feit?
Viljum við eignast maka af því að við erum svo einmana?
Viljum við stofna fyrirtæki til að verða rík?
Viljum við starfa í stjórnmálum til að ná okkur í völd og virðingu annarra?
Hvað ætlum við að gera þegar við erum orðin grönn, rík, valdamikil og hætt að vera einmana?
Hvað þá?