Fara í efni

Hátíðarveisla frá mæðgunum

Jólahaldið er samofið allskyns hefðum og oft eru hefðirnar sem tengjast jólamatnum sterkar. Mörgum finnst dásamlegt að hafa matinn nákvæmlega eins og hann hefur alltaf verið, á meðan aðrir eru ævintýragjarnir og prófa eitthvað nýtt á hverju ári.
Hátíðarveisla frá mæðgunum

Jólahaldið er samofið allskyns hefðum og oft eru hefðirnar sem tengjast jólamatnum sterkar.

Mörgum finnst dásamlegt að hafa matinn nákvæmlega eins og hann hefur alltaf verið, á meðan aðrir eru ævintýragjarnir og prófa eitthvað nýtt á hverju ári.

Hátíðamaturinn á það til að vera svolítið þungur í maga, sérstaklega þegar veisluhöldin standa yfir í marga daga. Þá er tilvalið að eiga uppskrift að grænmetisveislu uppi í erminni, og bjóða upp á til tilbreytingar. Kannski á aðfangadagskvöld eða gamlárskvöld, eða bara einhverntíman þar á milli. Við mæðgur erum grænkerar og því alltaf með grænmetisrétti, en við þekkjum líka margar alætur sem eru farnar að draga smámsaman úr kjötneyslunni, jafnvel á jólunum. Þá er hnetusteik góður valkostur, enda smellpassar hún með hefðbundnu meðlæti. Reyndar hefur hnetusteikin nú þegar skipað sér sess sem klassískur hátíðarréttur og er orðin ómissandi partur af jólahaldi margra. Það gleður okkar græna hjarta.

Sjálfar erum við í hópi þeirra sem breyta af og til um hátíðarrétt, við höfum oft bara haft það sem er í uppáhaldi hverju sinni. Í fyrra vorum við með ljúffenga hnetuturna, innblásna af hnetusteik. Í ár ætlum við að bjóða upp á vel grillað eggaldin með kryddjurtapestó. Okkur langar að deila uppskriftinni með ykkur, það er svo gott að eiga fleiri hátíðlegar uppskriftir að velja úr.



Eggaldin með hnetu- og kryddjurtapestó

Eggaldin fyrir 4
2 eggaldin
4 msk ólífuolía
1 tsk timían (við notum lífrænt, bragðið er svo gott)
1 tsk paprikuduft
smá sjávarsaltflögur
nýmalaður svartur pipar

  1. Skerið eggaldinið í tvennt, skerið í sárið rákir á ská
  2. Hrærið saman olíu, timian, paprikudufti, salti og pipar
  3. Pennslið eggaldinið með kryddblöndunni
  4. Setjið í ofnskúffu og bakið við 200° í 35mín.
  5. Látið kólna smá stund.
  6. Setjið um 5 msk af pestó ofan á hvert eggaldin og svo um 3 msk af granateplasalsa.

Kryddjurtapestó
100g ferskur kóríander
50g ristaðar heslihnetur
50g ristaðar kasjúhnetur
1-2 smátt skornar döðlur
safinn úr 1 sítrónu
1-2 hvítlauksrif
1 tsk chiliflögur
sjávarsalt
1 dl jómfrúar ólífuolía

- Setjið allt nema ólífuolíuna í matvinnsluvél og maukið, bætið ólífuolíunni út í og klárið að blanda saman.

Granateplasalsa
kjarnarnir úr ½ granatepli
2 msk smátt saxaður rauðlaukur

  1. Skerið granateplið í tvennt, sláið kjarnana úr því og setjið í skál.
  2. Saxið rauðlaukinn smátt og bætið út í og blandið létt saman.

....lykilatriði er að grilla eggaldinið nógu vel, svo það verði alveg meyrt í gegn, þannig er það lang best. 

Hátíðlegt meðlæti

Heimalagað rauðkál
500g rauðkál
4 lífræn epli
2 mandarínur (afhýddar)
1-2 msk kókospálmasykur eða 4-5 döðlur
1 msk sítrónusafi
2 msk engiferskot eða 2 cm biti fersk engiferrót
1 – 2 tsk sambal olek (má sleppa - inniheldur chili og gefur sterkt og gott bragð)
smá sjávarsalt

  1. Skerið rauðkálið í frekar þunna strimla og setjið í pott.
  2. Afhýðið eplin og skerið í bita og bætið út í.
  3. Afhýðið mandarínurnar, og setjið rifin út í ásamt kókospálmasykri/döðlum, sítrónusafa, engifer, sambal olek og sjávarsalti.
  4. Hrærið í og merjið mandarínurifin til að fá vökva.
  5. Látið suðuna koma upp, hrærið reglulega í og látið sjóða við vægan hita í 30 mín.

Grænt salat
50g spínat
50g klettasalat
1 avókadó
1 dl möndlur, þurrristaðar í ofni

- Setjið spínat og klettasalat í skál, skerið avókadó í bita og stráið möndlunum yfir.

Hvít sósa
1 dl kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2-4 klst
vatn (það á að rétt fljóta yfir hneturnar)
1 msk næringarger (má sleppa ef ekki til og auka þá á laukduftið)
1 msk sítrónusafi
1 daðla
1 tsk laukduft
½ tsk sjávarsalt
½ hvítlauksrif

- Allt sett í blandara og blandað þar til kekklaust. Geymist í kæli í 5-7 daga.

Sætar kartöflur
4 litlar sætar kartöflur (eða tvær stærri)
jómfrúar ólífuolía
1 msk rósmarín (við notum lífrænt, upp á bragðið)
smá sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar

  1. Skerið rákir í kartöflurnar, hafði um 1 cm á milli rákanna,
  2. kryddið með rósmarín, sjávarsalti og nýmöluðum svörtum pipar og hellið smá ólífuolíuskvettu yfir.
  3. Bakið við 200°C í 30 – 40 mín. Því stærri sem kartöflurnar eru því lengri tíma þurfa þær.

Af vef maedgurnar.is