Heildarneysla aðskotaefna
Matís vinnur nú að athyglisverðu Evrópuverkefni þar sem þróaðar verða aðferðir til meta hversu mikið af óæskilegum aðskotaefnum fólk fær úr matvælum.
Verkefnið heitir Rannsókn á heildarneyslu aðskotaefna úr matvælum, Total Diet Study Exposure, og er unnið í samstarfi við 19 Evrópulönd, 7. rannsóknaáætlun Evrópusambandsins styrkir verkefnið að hluta til.
Verkefnið miðar að því að bæta og staðla vöktun á því hversu útsett við erum fyrir óæskilegum aðskotaefnum í matvælum eins og þau eru á borðum neytenda. Til þess að hægt sé að framkvæma samræmdar rannsóknir þarf fyrst að samræma þær aðferðir sem notaðar eru við sýnatöku matvæla, mælingar á aðskotaefnum í matvælum, gæðamat á gögnum o.s.frv.
Ætlunin er að prófa mismunandi aðferðir sem notaðar hafa verið í Evrópu og skilgreina besta verklag við rannsóknirnar. Aðferðirnar verða síðan notaðar til að meta magn aðskotaefna sem fólk tekur inn með fæðunni í nokkrum Evrópulöndum, þar á meðal Íslandi.
Einnig verður tekið saman hvaða aðskotaefni og hvaða matvæli skipta mestu máli við mat á heildarneyslu óæskilegra efna í fæðu Evrópubúa, en slíkar upplýsingar eru lykilatriði til þess að hægt sé að gera áhættumat vegna neyslu þessara efna og meta áhrif þeirra á heilsu manna.
Verkefnið er því mikilvægt fyrir eftirlits- og áhættumatsaðila eins og Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) og Alþjóða heilbrigðisstofnunina (WHO). Sá hluti rannsóknarinnar sem Matís tekur þátt í felur m.a. í sér þróun og innleiðingu á gæðaramma fyrir aðila sem stunda rannsóknir á heildarneyslu aðskotaefna, en einnig greiningu á gögnum um aðskotaefni. Matís mun einnig taka þátt í tilraun til að framkvæma samræmda rannsókn á heildarneyslu á fjórum aðskotaefnum á Íslandi og verða þær niðurstöður bornar saman við sambærilegar rannsóknir sem framkvæmdar verða í Tékklandi, Finnlandi, Þýskalandi og Portúgal. Sömuleiðis stýrir Matís vinnupakka sem hefur að markmiði að miðla upplýsingum varðandi niðurstöður verkefnisins til hagsmunaaðila.
Rannsóknin á heildarneyslu aðskotaefna gerir okkur kleift að fá raunverulegt mat á það hversu útsett við erum fyrir óæskilegum aðskotaefnum s.s.þungmálmum, þrávirkum lífrænum efnum, sveppaeiturefnum og fleiri aðskotaefnum úr matvælum eins og við borðum þau, hvort sem er steikt, soðin, grilluð, reykt, þurrkuð eða bökuð. Verkefnið er til fjögurra ára og er áætlað að því ljúki árið 2016.
Nánari upplýsingar eru á heimasíðu verkefnisins: www.tds-exposure.eu.
Nánari upplýsingar hjá Matís veitir Helga Gunnlaugsdóttir.