Heilsuhegðun Norðurlandabúa
Embætti landlæknis hefur staðið fyrir norrænni könnun á mataræði, hreyfingu og holdafari hér á landi í samstarfi við rannsakendur frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Svíþjóð. Önnur umferð fór fram haustið 2014 og er hér birt skýrsla með niðurstöðum hennar en fyrri umferð fór fram haustið 2011.
Norræna ráðherranefndin fjármagnaði kannanirnar sem gera það mögulegt að sjá hvernig heilsuhegðun á Norðurlöndunum hefur þróast milli 2011 og 2014.
Meira borðað af sykurríkum vörum hér en á hinum Norðurlöndunum
Fleiri fullorðnir á Norðurlöndunum borða óhollan mat samkvæmt könnuninni 2014 miðað við 2011. Til að meta hvort fólk á Norðurlöndunum borðar hollan eða óhollan mat var reiknaður svokallaður hollustustuðull (e. dietary index). Hann byggir á tíðni neyslu sem þátttakendur hafa gefið upp fyrir valdar fæðutegundir eins og ávexti og grænmeti, fisk, heilkornabrauð og matvörur sem innihalda mikið af mettaðri fitu eða viðbættum sykri. Hlutfall Norðurlandabúa sem borða óhollan mat hefur aukist úr 18% árið 2011 í 22% árið 2014. Ef eingöngu eru skoðaðar tölur fyrir Ísland þá er aukningin meiri hér á landi, fer úr 19% í 25%.
Á Íslandi er meira borðað af sykurríkum matvörum (súkkulaði/sælgæti, kökum og gosdrykkjum) en á hinum Norðurlöndunum og hefur neyslan ekki minnkað frá árinu 2011 líkt og gerst hefur á hinum Norðurlöndunum að Svíþjóð undanskilinni þar sem neyslan hefur staðið í stað. Íslendingar borða minnst af grænmeti og ávöxtum miðað við hin Norðurlöndin og hefur neyslan hér ekki breyst á tímabilinu. Sömuleiðis borða Íslendingar minnst af heilkornabrauði og hefur neyslan minnkað milli ára. Fiskneysla er aftur á móti mest á Íslandi og er óbreytt milli kannana.
Aukinn félagslegur ójöfnuður þrátt fyrir jákvæða þróun í mataræði barna
Niðurstöður varðandi mataræði barna á Norðurlöndunum eru jákvæðari en hjá fullorðnum. Tæplega 15% norrænna barna flokkast með mataræði sem telst óhollt og hefur það ekki breyst frá 2011. Hlutfallið á Íslandi er sambærilegt við hin Norðurlöndin. Félagslegur ójöfnuður í mataræði hefur þó aukist meðal barna á Norðurlöndum. Þannig teljast tvöfalt fleiri börn foreldra með minnstu menntun borða óhollt 2014 en 2011 (25% en var 12%) og færri börn foreldra með mestu menntun teljast borða óhollt 2014 en 2011 (14% en var 11%).
Íslensk og finnsk börn borða mest af sykurríkum fæðutegundum. Íslensk og norsk börn borða aftur á móti minnst af grænmeti og ávöxtum miðað við hin Norðurlöndin og íslensk og sænsk börn borða minnst af heilkornabrauði og minnkaði neysla á heilkornabrauði hér á landi á tímabilinu. Íslensk börn borða aftur á móti mest af fiski og jókst fiskneyslan hér á milli ára.
Fleiri fullorðnir hreyfa sig ekkert og fleiri verja miklum frítíma í kyrrsetu við skjá
Að meðaltali hreyfa um einn af hverjum þremur fullorðnum Norðurlandabúum sig ekki í samræmi við ráðleggingar um lágmarkshreyfingu (e. inactive) árið 2014 líkt og 2011 og á það einnig við um Ísland. Fleiri hreyfa sig ekkert (e. highly inactive, 12% 2014) en á sama tíma stunda fleiri ákjósanlega hreyfingu (e. highly active, 14% 2014). Hlutfall þeirra sem hreyfa sig ekkert er hæst í Noregi og á Íslandi árið 2014 og hefur aukist hér á landi úr 14% í 17% á tímabilinu. Athygli vekur að hlutfall 18–24 ára Norðurlandabúa sem hreyfa sig ekkert hefur nær tvöfaldast og er nú sambærilegt og í eldri aldurshópum eða um 12% 2014.
Hvað kyrrsetu varðar verja 30% Norðurlandabúa fjórum klukkustundum eða meira við skjá (sjónvarp eða tölvu) í frítíma 2014 og hefur það aukist lítillega frá 2011. Þetta hlutfall er lægst meðal Svía og Íslendinga, á við um einn af hverjum fjórum árið 2014. Félagslegur ójöfnuður er enn mikill bæði með tilliti til skjásetu og hreyfingar.
Meirihluti norrænna barna hreyfir sig of lítið
Sex af hverjum tíu norrænum börnum hreyfa sig ekki í samræmi við ráðleggingar um hreyfingu árið 2014 líkt og 2011. Finnsk og íslensk börn hreyfa sig helst í samræmi við ráðleggingarnar 2014. Norrænar stúlkur uppfylla síður ráðleggingarnar en drengir (64% á móti 54%). Að meðaltali hreyfa rúm 2% norrænna barna sig ekkert árið 2014. Hlutfall norrænna stúlkna sem hreyfa sig ekkert hefur minnkað.
Norræn börn verja að meðaltali þremur klukkustundum af daglegum frítíma sínum í kyrrsetu við skjá árið 2014. Tæp 16% barna verja miklum frítíma við skjá (≥4 klst./dag). Samanborið við hin löndin er þetta hlutfall lægst á meðal íslenskra barna (tæp 6%) en hæst á meðal danskra barna (rúm 20%). Þróunin er sú, jafnt hjá börnum og fullorðnum, að minni frítíma er varið í kyrrsetu við sjónvarpskjá en að sama skapi lengri tíma við tölvuskjá. Líkt og árið 2011 er lítilll félagslegur ójöfnuður meðal norrænna barna bæði hvað snertir kyrrsetu við skjá og hreyfingu.
Holdafar
Fleiri fullorðnir flokkast of feitir á Norðurlöndunum 2014 en 2011. Á Íslandi er hærra hlutfall fullorðinna sem teljast of feitir en á hinum Norðurlöndunum. Hlutfall offitu meðal barna á Norðurlöndunum hefur ekki breyst milli ára og ekki er munur á milli landanna.
Áfengis- og tóbaksnotkun
Í vöktuninni 2014 var í fyrsta sinn spurt um áfengis- og tóbaksnotkun. Það er því ekki unnt að bera saman þróun milli ára heldur einungis neysluna milli Norðurlanda. Að meðaltali neyta Norðurlandabúar áfengis 1,7 sinnum í viku og um 45% aðspurðra hafa drukkið sig ölvaða á síðastliðnum 30 dögum. Lægst tíðni áfengisneyslu og ölvunardrykkju er á Íslandi meðan Danir drekka oftast og Norðmenn drekka sig oftast ölvaða.
Að meðaltali reykja einn af hverjum fimm Norðurlandabúum daglega eða öðru hvoru. Reykingar mælast lægstar í Svíþjóð en hæstar í Danmörku. Samkvæmt þessari könnun reynast álíka margir reykja á Íslandi og í Noregi. Mikill munur mælist milli þjóðfélagshópa á öllum Norðurlöndunum þar sem hópurinn með minnstu menntunina reynist tvöfalt líklegri til að reykja en þeir með mestu menntunina.
Staðreyndir um könnunina
Norræna vöktunin á mataræði, hreyfingu og holdafari var framkvæmd árin 2011 og 2014 í Noregi, Svíþjóð, Íslandi, Finnlandi og Danmörku. Í þessum tveimur könnunum var safnað gögnum fyrir samtals 4.949 börn á aldrinum 7–12 ára og 17.775 fullorðna á aldrinum 18–65 ára á Norðurlöndunum.
Könnunin byggir á tilviljunarkenndu úrtaki úr þjóðskrá og var gögnum safnað með viðtölum í gegnum síma. Foreldrar svöruðu könnuninni fyrir börn sín. Þátttakendur voru spurðir um hve oft þeir borði ákveðnar fæðutegundir, hversu miklum tíma þeir verja í miðlungserfiða og erfiða hreyfingu og í kyrrsetu við skjá. Einnig var spurt um menntunarstig ásamt hæð og þyngd. Fullorðnir voru einnig spurðir um hve oft þeir reykja og drekka áfengi. Fyrirtækið Maskína sá um gagnasöfnun hér á landi.
Kannanirnar sýna hvernig heilsuhegðun á Norðurlöndunum hefur þróast milli 2011 og 2014 og gera það mögulegt að bera saman mataræði, hreyfingu og holdafar í löndunum fimm yfir tíma. Niðurstöðurnar eru metnar með tilliti til markmiða fyrir 2011 og framtíðarsýn fyrir 2021 í Norrænu aðgerðaáætluninni frá Norrænu ráðherranefndinni um næringu og hreyfingu. Einnig fengust samanburðarhæfar upplýsingar um áfengis- og tóbaksnotkun árið 2014.
Norræna vöktunin á mataræði, hreyfingu og holdafari er eina norræna könnunin þar sem safnað er umfangsmiklum, samanburðarhæfum norrænum gögnum meðal bæði barna og fullorðinna um heilsuhegðun yfir tíma.
Niðurstöður vöktunarinnar 2014 eru nú birtar í skýrslu, sjá skýrslu (PDF).
Hluti niðurstaðna hefur verið kynntur á norrænum ráðstefnum árið 2016 en í skýrslunni eru í fyrsta sinn kynntar heildarniðurstöður könnunarinnar.
Hólmfríður Þorgeirsdóttir
verkefnisstjóri næringar
Gígja Gunnarsdóttir
verkefnisstjóri hreyfingar
Sjá ítarefni.