Fara í efni

Heitbindingarathöfnin - hugleiðing Guðna á miðvikudegi

Heitbindingarathöfnin - hugleiðing Guðna á miðvikudegi

Að lofa sig og vera lofaður

Við heitbindum okkur, gefum okkur, lofum okkur – við verðum lofuð því að vera skaparar og leiðtogar í eigin lífi, rétt eins og við erum (sum eða mörg okkar) tilbúin að lofa okkur annarri manneskju fyrir lífstíð í hjónabandi:

Heitbindingarathöfnin
„Nú spyr ég þig, Guðni. Er það einlægur vilji þinn að ganga að eiga sjálfan þig?“
„Já.“
„Vilt þú vera þér trúr, elska þig og virða í hverjum þeim kjörum sem lífið lætur þér að höndum bera?“
„Já.“
„Taktu í hönd þér og lýstu yfir vilja þínum um tryggð og trúfesti með því að hafa yfir eftirfarandi orð:“
„Ég, Guðni, nefni nafn mitt í kærleika og gleði, frammi fyrir augliti heimsins. Ég heiti því að deila lífi mínu með mér á hverju augnabliki. Ég heiti mér tryggð og trúfesti. Ég mun standa með mér alla daga í blíðu og stríðu. Ég mun ganga með mér á lífsins vegum, í mínu nafni. Ást.“

Undirskrift:

Ég undirritaður, _________________________, geng hér með að eiga sjálfan mig og lofa mér ævarandi stuðningi og kærleika í öllum mínum gjörðum, stórum og smáum.

Við lofum okkur öðrum manneskjum, bindum okkur vinnu á metnaðarfullan hátt, verjum börnin okkar og fjölskyldumeðlimi, hvað sem það kostar. Samt viljum við ekki standa með sjálfum okkur, í blíðu og stríðu, vera trygg og trúföst; viljum ekki elska okkur eins og við erum, hættum smám saman að verða trúverðug og fyllumst van- trausti í eigin garð.