Heitbinging rífur brynjuna utan af hjartanu - hugleiðing Guðna í dag
Dempað er dúðað hjarta
Skortdýrið umlykur hjartað með efasemdum, gulrótum, tuði, frestun, lygum, svikum, prettum, iðrun, eftirsjá, von, væli, gremju, kvíða, ótta og þegar-veiki og allt þetta skapar þykkan og veglegan einangrunarhjúp sem dempar þann takt lífsins sem hjartað vill miðla í kærleika sínum. Brjóstkassi, brjóstbak og herðar verða að brynju – skildi. Um leið og þú heitbindur þig til fullra samvista við þig tekurðu fulla ábyrgð á því að vera skapari og leiðtogi í eigin lífi og sendir mögnuð skilaboð til tilverunnar – skilaboð um að þú takir fulla ábyrgð og gefir þig að fullu til samvista við þig og lífið.
Heitbindingin rífur brynjuna utan af hjartanu. Skjaldarlaust útvarpar hjartað tíðni sinni af margföldum krafti til heimsins og allra sem í honum búa – opið hjarta snertir allt og heimurinn fer að hreyfast með; heimurinn fer að hlusta og hreyfast.
Í náttúrulífsmynd var fjallað um fuglategund sem kom alltaf í sömu fjöruna á hverju ári til að útbúa hreiður, verpa eggjum og hlúa að nýjum ungum. Loftmynd af fjörunni sýndi hundruð þúsunda fugla, gargandi og skríkjandi allan liðlangan daginn. Hjá þessari fuglategund gætti karlfuglinn unganna en kvenfuglinn flaug á morgnana út á hafið í leit að æti. Hún sneri aftur að kvöldi með gogginn fullan af æti og þá tók við það verkefni að finna aftur fjölskylduna.
Sjáðu fyrir þér fjöru þakta af hundruðum þúsunda fugla sem allir líta nokkurn veginn eins út.
Ímyndaðu þér fuglagargið í fjörunni.
Veltu því fyrir þér hvernig kvenfuglinn fer að því að finna fjölskyldu sína aftur.
Hefur hún svo magnaða staðsetningartækni að hún geti séð og munað hvar fjölskyldan var um morguninn? Hvað ef fjölskyldan færir sig um set yfir daginn?
Hefur hún svo magnaða heyrn að hún geti greint garg karlfuglsins og unganna sinna, í öskurkór þúsunda annarra fugla?
Eða skynjar hún tíðni afkvæma sinna; þeirra sem eiga fullkominn samhljóm með slætti hennar eigin hjarta?