Hið ímyndaða regluverk - hugleiðing dagsins frá Guðna
HVER Á REGLURNAR? EINKENNAST ÞÆR AF ÁST?
Í venjulegu lífi lifum við eftir risastóru og að hluta til ímynduðu regluverki sem við höfum ekki skapað sjálf í vitund. Við erum týnd í meðvirkni gagnvart þessu óskráða regluverki og skömmum okkur fyrir að fylgja ekki reglunum.
Ábyrgðin sem þessi skrif krefja þig um er að þú skapir þínar eigin reglur – þína eigin umgjörð, í fullri heimild og ást. Þannig losnarðu úr álögum meðvirkninnar. Þínum eigin reglum muntu alltaf vilja fylgja.
Lykillinn er þessi: Ef ég má ekki vera eins og ég er (samkvæmt mér) af hverju ætti ég þá að leyfa öðrum að vera eins og þeir eru?
Með því að að frelsa þig inn í eigin reglur sleppirðu öðrum og leyfir þeim að vera eins og þeir eru.
Leiðin frá ofbeldinu lítur svona út: Við hættum að skammast okkar og sparka í okkur liggjandi. Við förum að sættast við okkur og skilja valdið í eigin orku. Við tökum ábyrgð á okkur og förum að stjórna orkunni í vitund. Við elskum okkur, allt sem við höfum gert og allt sem við upplifum. Við elskum og erum frjáls.