Hin frægu jólakíló
Eru jólin eingöngu til þess að reyna hve miklar freistingar við konur getum staðist?
Það skal engann undra þótt við bætum á okkur að meðaltali þrem kílóum yfir hátíðarnar. Jólahlaðborð, smákökubakstur, konfektgerð, laufabrauð og svo auðvitað sjálf jólasteikin, jólaboðin, heimalagaði rjómaísinn, áramótin og allt sem hátíðinni tilheyrir. Jólin hafa þróast í það að verða ein allsherjar neysluveisla. En við skulum líta á björtu hliðarnar, jólin eru ekki komin og það er enn tími til að sporna við þessum „jólakílóum“.
Til að bæta á okkur þremur kílóum af líkamsfitu þurfum við að neyta 21.000 auka hitaeininga. Höfum það hugfast að þessi þyngdaraukning er ekki skipun frá jólasveininum, við getum komið í veg fyrir hana.
Er ekki þess virði að vera framsýn og finna leiðir til að koma í veg fyrir þessa jóla þyngdarsveiflu. Við erum e.t.v. búin að eyða talsverðum tíma í púl og svita í líkamsrækt yfir árið og erum í fínu formi í nóvember. Svo kemur desember og ..HÓKUS PÓKUS… á tveim til þrem vikum fer allur árangur ársins í vaskinn.
Jólin, koma jú aðeins einu sinni á ári og vissulega eigum við öll að njóta þeirra en það er hægt að gera það án þess að leggjast í át. Jólin eru hátíð ljóss og friðar en ekki árlegir „átleikar“ sem hefjast með opnunarhátíð í byrjun desember lýkur á nýjársdag. Höfum fyrir reglu að gæta hófs. Það er sjálfsagt að smakka á spennandi kræsingum en mundu eftir þrjá konfekt mola að þeir smakkast allir eins. Svo fáðu þér smá smakk og njóttu bragðsins og félagsskaparins.
Gefðu þér tíma til að stunda þjálfun í desember. Það er alltaf tími fyrir líkamsrækt ef maður hefur áhuga á að koma því við. Þó að nóg sé að gera í jólaundirbúningi getum við skipulagt tíma okkar þannig að líka er rúm fyrir þjálfun. Hluta af þessari dæmigerðu jólaþyngdaraukningu má rekja til of lítillar hreyfingar í desember. Gerum raunhæfa æfingaáætlun sem við munum að standa við. Desember er e.t.v. ekki rétti tíminn til að ætla sér að bæta núverandi líkamsástand en að halda því við er raunhæft markmið.
Gerum breytingu í ár. Hugsum fram á við, komum í veg fyrir að við vöknum upp við „vondan draum“ í janúar þegar við komumst að því að við getum ekki lengur rennt upp buxnaklaufinni á uppáhalds gallabuxunum (og það er ekki af þvi að rennilásinn er bilaður!). Þjálfun í 30 mínútur á dag og „allt er best í hófi“ eru góðar lífsreglur yfir hátíðarnar og vittu til ef þú nýtur ekki ávinnings þeirra strax í desember þá er öruggt að þú nýtur þeirra í janúar.
Ágústa Johnson
Heimildir: doktor.is