Hjartað þolir illa stress
Vísindamenn hafa lengi vitað að streita getur orsakað margvísleg heilsufarsvandamál. Nú hafa þeir komist að því að viðvarandi streita, ýtir ekki aðeins undir margskonar sjúkdóma heldur getur beinlínis verið orsök þeirra.
“Við erum rétt að byrja að átta okkur á hvernig streita getur haft áhrif á fjölmarga sjúkdóma sem tengjast því að eldast svo sem og hjartasjúkdóma, efnaskiptasjúkdóma, sykursýki og jafnvel ótímabæran dauða” segir Sheldon Cohen, prófessor í sálfræði við Carnegie Mellon háskólann í Pittsburgh í Bandaríkjunum.
Streita vandamál hjá 50+
Að sjálfsögðu upplifa allir streitu einhvern tímann en talið er að streita sé viðvarandi vandi hjá stórum hópi fólks sem er orðið fimmtíu ára og eldra. Það sem veldur mestri streitu hjá þeim sem eru komnir á miðjan aldur eru dauðsföll í fjölskyldunni og andlát náinna vina, veikindi og atvinnumissir.
Hér á eftir eru taldir upp algengir kvillar og vandamál sem geta hrjáð fólk á miðjum aldri sem er illa haldið af streitu.
Fá kvef og þyngjast
Kvef. Í rannskókn sem Cohen gerði voru 276 einstaklingar spurðir um streituvaldandi atvik í lífi þeirra, svo voru þeir smitaðir með vírus sem veldur venjulegu kvefi. Í ljós kom að þeir stressuðu höfðu myndað ónæmi fyrir kortisoli, en það dregur úr bólgum í líkamanum, þeir voru þar með líklegri til að veikjast. “Stöðug streita veldur því að frumur ónæmiskerfisins verða ófærar um að bregðast rétt við, það veldur bólgum sem svo aftur leiðir til veikinda” segir Cohen.
Þyngdaraukning. Það hefur lengi verið vitað að streituhormón örva löngun í mat sem er ríkur af sykri, sterkju og fitu. Það er ástæða þess að við teygjum okkur í súkkulaðistykkið þegar vinnudagurinn er erfiður. Rannsóknir benda til að þeir sem eru illa haldnir af streitu brenni ruslfæðinu hægar en aðrir. Sumir telja því að streita geti haft þau áhrif að það hægi á brennslu líkamans.
Sárin gróa hægt og svefninn ruglast
Hægari bati. Of mikið kortisól veldur því að sár gróa hægar og virkni bólusetninga minnkar hjá rosknu fólki. Samkvæmt rannskókn Janic Kiecolt-Glaser prófessor í taugasjúkdómum hjá ríkisháskólanum í Ohio greru sár vegna lífsýnatöku hjá eldri konum sem önnuðust heilabilaða sjúklinga tíu dögum seinna heldur en hjá samanburðarhópi eldri kvenna sem enga önnuðust. “Því lengur sem streitan er viðvarandi því lengur eru viðbrögð ónæmiskerfisins í ólagi” segir hún.
Svefntruflanir. Gamalt fólk upplifir náttúrulega styttingu djúpsvefns og þess að vökutíminn lengist. Streita getur aukið á svefnvandamál eldra fólks og gert því sérstaklega erfitt að sofna aftur vakni það um nótt. Þar sem viðvarandi svefnleysi getur skert minni og stjórn á tilfinningum má fólk með mikil svefnvandamál oft þola mikla streitu.
Streita og hjartaáföll
Hjartasjúkdómar. Vísindamenn hafa lengi vitað að tengsl væru á milli langvarandi streitu og hjartaáfalla. Í læknadeild Harvardháskóla var blóð tekið úr læknanemum sem voru undir miklu álagi í námi og starfi. Í ljós kom að nemarnir voru með hærra hlutfall hvítra blóðkorna í blóðinu heldur en samanburðarhópar sem ekki voru undir jafn miklu álagi. Rannsóknir benda til að hvít blóðkorn setjist á æðaveggina. Þetta tvennt, aukin myndun hvítra blóðkorna og uppsöfnun þeirra á æðaveggjum veldur kölkun í æðum sem er eitt megineinkenni hjarta- og æðasjúkdóma.
Þunglyndi og magasár
Þunglyndi. Prófessor Huda Akil við taugavísindadeild Michiganháskóla segir að streita geti valdið þunglyndi. Streita ruglar myndun og kemur ójafnvægi á taugaboðefni eins og serótíns, dópamíns og nórepinephrines og hefur þar með neikvæð áhrif á skap, matarlyst, svefn og kynhvöt. Sumir sjúklingar með alvarlegt þunglyndi geta verið með hátt kortisól sem getur valdið skemmdum á heilafrumum, að mati Akil.
Magasár og önnur vandamál í meltingarvegi. Talið er að 15 prósent allra magasára orsakist af streitu og að hún hafi áhrif á fjölmarga kvilla tengda meltingarvegi.
Verkir í baki, öxlum og hálsi. Milljónir manna húka dögum saman yfir tölvuskjám. Menn eru ekki vissir um ástæðu þess að fólk í streituvaldandi vinnu þjáist oft af verkjum í baki, öxlum og hálsi en geta sér þess til að bólgur sem orsakist af streitu nái ekki að hjaðna og því sé fólk sárþjáð af þeim langtímum saman.
Heimild: lifdununa.is