Hlaupahópur vikunnar: Hlaupahópur Ármanns
Nafn hópsins: Hlaupahópur Ármanns
Þjálfari/Þjálfarar: Stefán Guðjónsson
Hvaðan hleypur hópurinn:
Frá frjálsíþróttahöllinni í Laugardal en laugardagsæfingar byrja á ýmsum stöðum um höfuðborgarsvæðið til þess að auka á fjölbreytnina.
Hvaða daga og kl. hvað:
Hlaupahópur Ármanns hittist allt árið um kring þrisvar í viku, yfir sumartímann eru æfingarnar á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17:30 og laugardagsmorgna kl. 8:00. Yfir vetrarmánuði eru æfingar í frjálsíþróttahöll Laugardals á þriðjudögum og fimmtudögum og útiæfingar á laugardagsmorgnum.
Er hópurinn fyrir byrjendur og lengra komna:
Hlaupahópurinn er öllum opinn og samanstendur af breiðum hóp hlaupara sem allir hafa það að markmiði að stunda íþróttina sér til heilsubótar og ánægju.Í hópnum eru hlauparar á ýmsum getustigum og á öllum aldri sem hafa ólíkan bakgrunn í íþróttinni. Sumir leggja áherslu á maraþonhlaup, aðrir á styttri veglengdir, eins og 5-10 km hlaup, og enn aðrir leggja áherslu á utanvegahlaup, eins og hin árlegu Laugavegs- og Esjuhlaup svo dæmi séu tekin.
Er hópurinn virkur í að taka þátt í hlaupatengdum viðburðum hérlendis og erlendis:
Hópurinn er mjög virkur allt árið um kring og tekur þátt í Powerade vetrarhlaupunum og mörgum hlaupaviðburðum yfir sumartímann hérlendis. Einnig hafa hlauparar úr hlaupahópnum tekið þátt í maraþonum og öðrum hlaupum erlendis og skipulagt skemmtilegar hópferðir í kringum þá viðburði.
Heldur hópurinn sín eigin hlaup:
Hlaupahópur Ármanns skipuleggur Mt. Esja Ultra hlaupið sem var haldið 22. júní í ár og í samstarfi við Ármann kemur hlaupahópurinn við sögu við skipulagningu og framkvæmd Ármannshlaupsins og Miðnæturhlaups Suzuki.
Er félagslíf hjá hópnum utan við venjulegar hlaupaæfingar og hvað þá helst:
Félagslífið í hópnum er mjög gott og haldin er árshátíð árlega og aðrir viðburðir til þess að sameina hópinn og efla andann.
Heldur hópurinn úti vefsíðu og hver er slóðin:
Hlaupahópurinn er ekki með heimasíðu en við erum með facebook síðu.
Að lokum:
Hlaupahópur Ármanns hvetur byrjendur sem lengra komna til þess að ganga til liðs við skemmtilegan hlaupahóp.
Fyrirspurnir um nánari upplýsingar má senda á netfangið hlaupahopur@armannfrjalsar.com