Hlaupið með Útmeð‘a - Laugardaginn 27.júní kl. 11
Almenningi er boðið að taka þátt í opinni hlaupaæfingu tólf manna hlaupahóps undir merkjum Útmeð‘a frá aðalskrifstofu Rauða kross Íslands, Efstaleiti 9, kl. 11 á laugardaginn 27. júní.
Boðið verður upp á tvær vegalengdir á opnu æfingunni, 3 km og 5 km, og er þátttakan öllum opin og ókeypis.
Hlaupaæfingin er liður í undirbúningi hlauparanna undir að hlaupa hringinn í kringum landið um næstu mánaðamót. Markmið hópsins er að vekja athygli á því að sjálfsvíg eru algengasta dánarorsök ungra íslenskra karlmanna og safna áheitum til að efna til vitundarvakningar um vandann.
Geðhjálp, Hjálparsími Rauða krossins og hlaupahópurinn standa sameiginlega að átaks- og forvarnarverkefnisins Útmeð‘a. Með slagorðinu eru ungir menn hvattir til að setja tilfinningar sínar í orð í því skyni að hafna ekki í tilfinningalegu öngstræti með ófyrirséðum afleiðingum. Markmið átaksins er að efna til vitundarvakningar meðal almennings til að fækka sjálfsvígum í þessum viðkvæma hópi.
Fjórir til sex ungir menn taka líf sitt að jafnaði á Íslandi á hverju ári. Ríflega eitt símtal til Hjálparsíma Rauða krossins 1717 snýst um sjálfsvíg, eigið eða annarra, á hverjum einasta degi allan ársins hring. Símtöl til hjálparsímans um sjálfsvíg voru 42% fleiri fyrrihluta ársins 2015 en fyrrihluta ársins 2014.
Hægt er að styrkja hlaupið um 1.500 kr. með því að hringja í símanúmerið 904 1500 eða eða leggja inn á söfnunarreikning Geðhjálpar, 546 – 14 – 411114, kt. 531180 – 0469 valda upphæð.
Stefnt er að því að vitundarvakningu gegn sjálfsvígum ungra karla verði ýtt úr vör með frumsýningu forvarnarmyndbands á Alþjóðlegum forvarnardegi gegn sjálfsvígum þann 10. september næstkomandi.
Frekari upplýsingar veita Linda Svanbergsdóttir fyrir hönd hlaupahópsins (699 7727), Anna Gunnhildur Ólafsdóttir fyrir hönd Geðhjálpar (963 9391) og Hjálmar Karlsson (848 9209) og Björn Teitsson (8481254) fyrir hönd Rauða krossins.