Hlúðu að því sem þér þykir vænt um
Það er viðurkennt að fyrstu vikurnar í lífi sérhvers barns skipta sköpum fyrir þroska heilans og á því tímabili skiptir líkamleg snerting sköpum fyrir manninn út lífið, sem og ástúð og hlýja. Einlæg vinátta byggist á hlýju og skiptir þá engu hver maðurinn er. Menn eru félagsverur.
Nútíma aðstæður krefjast meiri víðsýni en áður og jafnvel ósérplægni því að lífveran og viðhorfin breytast í sífellu. Þegar við tölum og hugsum um annað fólk getum við ekki látið sem það skipti okkur ekki lengur máli. Hugsi maður aðeins um sjálfan sig og skeyti engu um réttindi og velferð annarra, eða það sem verra er, reynir að græða á þeim, leiðir það fyrr eða síðar til tjóns fyrir viðkomandi. Hann glatar vinum og elsku sem létu sér annt um velferð hans.
Þegar maður vinnur fyrir aðra er maður í raun og veru að vinna fyrir sjálfan sig. Maður er að koma sér upp hinum dýra sjóði sem mölur og ryð fá ekki eytt. Sjálfsmynd manns er forsenda þess að höndla hamingjuna. Þess vegna þurfum við að móta samfélag sem stuðlar að sterkari sjálfsmynd. Hún liggur í þeirri gæsku frumbernskuáranna, er við erum mótuð frá til lífstíðar.
Einlæg vinátta byggist á hlýju og skiptir þá engu hver staða manns er. Velferð og réttindi annarra skiptir höfuðmáli. Því sannari vinir sem við erum, því meira berum við úr býtum. Um einstigi skyldunnar liggur þroskaleiðin í lífi sérhvers manns. Maðurinn hefur fyrst og fremst skyldur við sjálfan sig. Og með því að gera sjálfan sig að betri manni, bætir hann heiminn.
Það er dýrmætt að eignast sálarfrið. Allir menn leita að slíkum friði. Hugurinn er einn hinn sanni orrustuvöllur mannsins. Þetta líf og þessi heimur, er heimur átaka og baráttu. Menn verða að rata hinn gullna meðalveg milli tveggja, deyfðar og sljóleika annars vegar og hins vegar að rasa ekki um ráð fram.
Lífið hefur ekki nauðsynlegan tilgang. Lífið er tilgangur. Tilgangur hverrar lífsveru birtist sem löngun. Löngun til þess að gera skyldu sína. Þess vegna er leið skyldunnar vegur sem liggur upp og fram og það slást allar langanir mannsins í för með henni. Maðurinn á sér frjálsan vilja. Vilji okkar breytist í verk. Við ráðum hugsunum okkar.
Hugsun, orð, verk verða alltaf orsök sem hefur í för með sér ákveðnar afleiðingar sem mæta okkur sjálfum fyrr eða síðar. Menn móta sitt eigið geð, hugsun og búa til sitt eigið eðli. Vald heimsins er valdið yfir sjálfum sér fyrst og fremst, lífi sínu, verkefnum og nánasta umhverfi.
Valdalaus er sá einn sem missir vald yfir sjálfum sér. Þess vegna verður hver og einn að hlúa að því er okkur er dýrmætast í þessu lífi.
Maður er manns gaman.
Eftir Eyjólf Magnússon Scheving og Helgu Hallbjörnsdóttir fyrir hönd Handarinnar.
Greinin er önnur greinin af tíu í greinarröð jafn margra úrræða og/eða félaga á geðheilbrigðissviðinu á höfuðborgarsvæðinu um Geðorðin 10.