Fara í efni

Höfum jákvæð áhrif á hvort annað

Það er svo gaman að fara út þessa dagana og sjá grænu svæðin í Reykjavík lifna við með fólki hlaupandi, gangandi, hjólandi og börn að leik.
Elliðarárdalur
Elliðarárdalur

Það er svo gaman að fara út þessa dagana og sjá grænu svæðin í Reykjavík lifna við með fólki hlaupandi, gangandi, hjólandi og börn að leik. Þegar ég fór í Elliðadalinn um síðustu helgi varð mér hugsað til þess afhverju ég kæmi ekki oftar á þennan fallega stað. Ég gat reyndar svarað sjálfri mér þeirri spurningu strax. Ég er svo oft föst í viðjum vanans og vantar hvatningu til að fara út úr þægindahringnum.

Við mannfólkið erum öll mismunandi að upplagi sem betur fer. Ég er sem dæmi fædd í Nautsmerkinu og hef oft falið mig á bak við það að nautið sé nautnaseggur og latt að eðlisfari þegar ég rökræði við sjálfa mig afhverju ég fór ekki á æfingu í dag. Samtal mitt við sjálfa mig snýst þá um að skammast vegna þess að ég veit að mér líður alltaf betur eftir að hafa hreyft mig. Hreyfingin hefur líka þær afleiðingar að ósjálfrátt borða ég hollari fæðu. Ég hef þó lært að fyrirgefa sjálfri mér og vitna í þá staðreynd að morgundagurinn sé framundan og ég hafi því tækifæri til að bæta upp tapið. Já, það er alltaf gott að fá annað tækifæri!

Sem betur fer á ég vini sem hafa haft áhrif á það hvernig lífsstíl ég lifi í dag. Þeir vinir mínir eru alltaf til staðar ef ég þarf á þeim að halda og hringja stundum í mig og bjóða mér með sér í hina eða þessa hreyfingu sem er ný fyrir mér. Mitt er að taka áskoruninni sem ég geri oftast. En þegar ég hugleiði það þá er nákvæmlega það að hafa áhrif á aðra ótrúlega mikilvægt fyrir alla. Mig langar með þessum pistli að biðla til allra að huga að því hverja þeir geti haft áhrif á til batnaðar þegar kemur til lífsstíls. Það þarf ekki mikið til göngutúr, 30 mínútna hlaup eða eitthvað sem getur hafið breytingarferilinn til betra lífs. Fyrir suma er bara erfitt að fara yfir þröskuldinn heima hjá sér.

Ég óska öllum gleðilegs hreyfingarsumars með von um að þessi pistill verði til þess að næst þegar þú ferð á æfingu, að hlaupa, ganga eða hvað sem þú gerir til að hreyfa þig, bjóðir einhverjum með þér!

Búum til snjóboltaáhrif hreyfingar þetta sumarið!

Lýðheilsukveðja,
Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir formaður félags lýðheilsufræðinga.