Höldum góðri heilsu lengur en flestar þjóðir
Það er ekki nóg með að meðalaldur Íslendinga sé með því hæsta sem gerist, heldur erum við svo heppin að við höldum góðri heilsu lengur, en flestir aðrir Evrópubúar. Það eru eingöngu Norðmenn og Svíar sem eru heilsuhraustari miðað við meðaltalið. Nýlega voru sagðar af því fréttir að íslenskir karlar lifa lengst allra karla í heiminum.
Samkvæmt evrópskri tölfræði sem nær til ESB landanna og EES svæðisins, um lífslíkur fólks í ýmsum löndum eftir 65 ára aldur og það hversu mörg ár það getur vænst þess að halda góðri heilsu eftir að þeim aldri er náð, kemur fram að lífslíkur íslenskra kvenna eftir 65 ára aldur eru 21.5 ár og þar af geta þær búist við að halda góðri heilsu í næstum 15 ár. Íslenskir karlar geta búist við að lifa að meðaltali í rúm 18 ár, eftir að þeir ná 65 ára aldri og vera við góða heilsu í rúmlega 13 ár eftir það.
Sænskar og norskar konur lifa jafn mörg ár eftir að 65 ára aldri er náð og þær íslensku og halda góðri heilsu í 15-16 ár eftir það. Svipaða sögu er að segja af norskum og sænskum körlum, þeir geta búist við að lifa álíka lengi eftir 65 ára aldurinn og íslenskir kynbræður þeirra, en halda heilsunni örlítið lengur eða í rúm 14 ár.
Konur og karlar, á Spáni, í Frakklandi og á Ítalíu geta búist við að bæta við sig fleiri árum eftir 65 ára aldurinn er Íslendingar, en þau halda heilsunni skemur. Þannig lifa konur í þessum löndum í 8-10 ár við góða heilsu eftir að þær ná 65 ára aldri, en karlarnir í 9-10 ár, sem er skemmri tími en hjá Íslendingum.
Heimild: lifdununa.is