Holl ráð um veirur og bakteríur
Hvað eru veirur?
Veirur eru örverur sem ekki geta fjölgað sér á eigin spýtur heldur þurfa þær að brjótast inn í frumur annarra lífvera og taka þær herskildi til að búa til fleiri veirueiningar.
Veirur eru uppbyggðar af erfðaefni (DNA eða RNA) og eru umluktar varnarhlíf úr prótíni. Þær geta krækt sér föstum á frumur og síðan troðist inn í þær.
Frumurnar í slímhúð okkar, t.d. öndunarfærunum, eru sérlega viðkvæmar fyrir veiruárás þar sem þær njóta ekki þeirrar varnar sem húðin veitir.
Hvað eru bakteríur?
Bakteríur eru einfrumu örverur sem eru færar um að fjölga sér sjálfstætt með frumuskiptingu.
Þær eru afar mismunandi í laginu, geta verið eins og kúlur, stafir eða skrúfur og er form þeirra haft til hliðsjónar við flokkun þeirra.
Bakteríur eru alls staðar, bæði utan á og inni í líkama okkar. Flestar þeirra eru alveg meinlausar og sumar eru beinlínis gagnlegar.
En sumar bakteríur valda sjúkdómum, annaðhvort vegna þess að þær lenda á röngum stað (þarmabaktería í þvagrás getur valdið blöðrubólgu) eða vegna þess að þær eru þess eðlis að skaða okkur.
Hvernig dreifast sýkingar með veirum og bakteríum?
Veirur og bakteríur dreifa sér mikið til eins, með dreifingu á vessum eða úða.
Kvefaður vinnufélagi getur dreift smiti, bæði með því að hósta og hnerra út í umhverfið, með því að heilsa með handabandi ef höndin er er full af sóttkveikjum eða með því að skilja eftir sóttkveikjur á hlutum sem hann eða hún snertir.
Önnur algeng smitleið er frá saur (manna eða dýra) sem berst í matvæli.
Hvað get ég gert til að forðast smit?
Tíður og rækilegur handþvottur er ein virkasta leiðin til að forðast t.d. kvef. Ef þú snertir kvefaða manneskju skaltu varast að nudda augun eða nefið á eftir, nema þú sért sólginn í að veikjast.
Matvæli á að matreiða eða kæla eins fljótt og hægt er þegar heim er komið.
Grænmeti og kjötvöru á að handleika aðskilið og hvert á sínu skurðarbretti.
Kjötið skal vera gegnumsteikt.
Munið að ekki er víst að ólykt sé af örverumenguðum mat. Sumar örverur drepast við matreiðsluna (t.d. stafýlókokkar frá fingri með ígerð) en skilja eftir eiturefni í matnum sem geta valdið niðurgangi og uppköstum.
Hvaða meðferð er við bakteríusýkingum?
Við bakteríusýkingum eru yfirleitt gefin ákveðin sýklalyf , öðru nafni fúkkalyf(antibiotics), þ.e. mótefni til höfuðs einmitt þeirri bakteríu sem veldur þessum veikindum. Til öryggis tekur læknirinn oft sýni sem getur annaðhvort strax sýnt fram á hvaða bakteríu er um að ræða eða eftir nokkurra daga ræktun í sérstöku æti.
Hvernig eru veirusýkingar meðhöndlaðar?
Gagnstætt bakteríum eru engin efnaskipti í veirum og þær geta ekki fjölgað sér nema í lifandi frumum. Því er ekki hægt að eitra fyrir þeim nema eitra líka fyrir okkar eigin frumum. Þetta er ástæðan fyrir að ónæmiskerfi sjúklingsins sjálfs er yfirleitt látið um að ráða niðurlögum veirusýkinga.
Það getur verið erfitt að taka því þegar læknirinn segir þér að þú sért með veirusýkingu og það eina sem bjóðist sé að láta náttúruna hafa sinn gang. Þegar þú ert veik/ur viltu fá lækningu. Meðhöndlun við veirusýkingum eins og flensu er jafnan að drekka mikinn vökva, vera heima (þá smitarðu ekki annað fólk) og hugsanlega taka verkjalyf og lyf sem lækka hita.
Það er alls engin ástæða til að vera í hetjuleik. Slíkar hetjur enda oft með að smita allan vinnustaðinn og fá síðan bakteríusýkingu því að slímhimnurnar eru sérlega viðkvæmar og móttækilegar eftir veirusýkinguna.
Sem betur fer er nú hægt að bólusetja við mörgum veirusjúkdómum, þ.e. gefa líkamanum verkfæri til að vera fljótari og duglegri að koma veirunni fyrir kattarnef.
Einnig hafa verið þróuð sífellt fleiri veiruhamlandi lyf sem varna því að sumar veirur geti fest sig og þrengt sér inn í frumurnar eða sem hindra vöxt veiranna svo að veikindin fara fyrr en annars. Því miður gagnast þessi lyf aðeins gegn fáum tegundum veira.
Grein af vef doktor.is