Hreyfðu þig daglega, það léttir lund
Ímyndaðu þér ungan mann sem á nýjan bíl. Hann fer á hverjum degi út á rúntinn. Vélin malar eins og ánægður köttur og allt virkar eins og það á að gera. Dekkin slitna líkt og þeim er ætlað og ungi maðurinn fer með bílinn í reglulegt viðhald sem hann borgar fyrir með glöðu geði.
Í hvert sinn sem ungi maðurinn fer út á bílnum með vinum sínum rekst hann á einhvern sem hann þekkir. Hann stoppar kannski til að tala við annan ökumann sem er með fullan bíl af skemmtilegu fólki rétt eins og hann sjálfur.
Ímyndaðu þér að tíminn líði og ungi maðurinn verði miðaldra. Bíllinn stendur í stæðinu, en miðaldra eigandinn keyrir hann sjaldan. Hann fer ekki lengur með bílinn í reglubundið viðhald og setur hann sjaldan í gang. Dekkin morkna og eyðileggjast með tímanum. Bíllinn grotnar niður. Og ef þannig vill til að eiganda bílsins langar til að keyra hann jafnvel aðeins stuttan spöl, þá höktir vélin, hann pústar mikið og gengur óreglulega. Dekkin hafa lítið grip og bíllinn verður hálfgerð slysagildra. Og þó eigandinn vilji alls ekki að bíllinn hans bili, þá er það oft þannig með gamla bíla að ef þeim er ekki haldið við þá bila þeir frekar og launa þannig slæmt viðhald.
Ímyndaðu þér nú að þú sért ungi maðurinn og miðaldra eigandinn í senn og bíllinn sé líkami þinn. Í því samhengi gætir þú velt því fyrir þér hvort sé betra að hreyfa líkamann reglulega og viðhalda styrk og heilbrigði, eða gera það ekki og verða þannig stöðnun og hægfara, en öruggri hnignun að bráð. Einhvern tíma sagði vitur maður að með reglulegri hreyfingu megi varðveita æskuljóman örlítið lengur. Síðan gætir þú líka hugsað út í andlega þáttinn eins og hann kemur fyrir í fimmta geðorðinu, en það hljómar svo: Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina.
Eftir Svein Snorra Sveinsson fyrir hönd deildar Geðhjálpar á Austurlandi.
Greinin er fimmta greinin af tíu í greinarröð jafn margra úrræða og/eða félaga á geðheilbrigðissviðinu á höfuðborgarsvæðinu um Geðorðin 10.