Hreyfing í hálfan annan tíma
Ekki alls fyrir löngu þótti nóg að hreyfa sig í 30 mínútur á dag, svona 3 í viku og borða 4-5 ávexti eða grænmetisbita. Svo kom Atkinskúrinn með öllu sem honum fylgir. Núna eru amerískir megrunarkúrasérfræðingar með enn eina töfralausnina í höndum sér. Lykillinn að alvöru þyngdartapi eru níu skammtar af ávöxtum eða grænmeti og níutíu mínútna hreyfing!
Ef þú hefur haldið að þú værir einn af þeim einstaklingum sem væri heilbrigðið uppmálað af því að þú skokkar í hálftíma á dag, þá verður þú að gjöra svo vel að líta í eigin barm. Hreyfing og enn meiri hreyfing er það sem fær kílóin til að fjúka ef marka má ráð Ameríkananna og hvenær hafa þeir klikkað þegar kemur að góðum ráðum?
Á fimm ára fresti senda Amerísk heilbrigðisyfirvöld leiðbeiningar, bæði til heilbrigðisstafsmanna og almennings varðandi hollustuhætti. Í nýjustu leibeiðingunum sem komu fram í ársbyrjun mátti lesa allt annan tón en hefur verið ríkjandi á síðustu árum. Hreyfing og meiri hreyfing er boðskapurinn næstu fimm árin. Eins og við þekkjum flest er kyrrstaða eitt megineinkennið í nútímaþjóðfélagi.
Kyrrstaða er kannski tvírætt orð þar sem hraðinn og stressið er að gera út af við marga, en við hreyfum okkur einfaldlega ekki nóg í hinu daglega lífi. Við ökum á milli staða, reynum að finna bílastæði sem næst vesluninni, tökum lyftuna í stað þess að ganga upp og niður tröppurnar og svo mætti lengi telja. Við erum alltaf að fækka skrefunum í hinu hversdagslega lífi og sú þróun er farin að ógna heilsu okkar.
Ef ætlunin er að tapa nokkrum kílóum er nauðsynlegt að iðka hreyfingu í það minnsta í níutíu mínútur á dag, vilja þessir sérfræðingar meina. Ef við ætlum bara að halda okkur í forminu, ættu sextíu mínútur að duga.
Þá kemur að stóru spurningunni, höfum við virkilega tíma til að bæta níutíu mínútuna strangri þjálfun inn í okkar vel skipulögðu dagskrá sem er fyrir að gera út af við okkur?
Hvernig er það bara hægt?
Fæstir geta gert það að föstum lið að mæta á æfingar eða í íþróttasalinn í einn og hálfan tíma á degi hverjum. Hins vegar sýnar þessar niðurstöður svo ekki verði um villst að nútímafólk er á villigötum hvað kemur að lífsstílnum.
Ef við myndum ganga meira, taka tröppur í staðinn fyrir lyftu og fleira á þessum nótum, þyrftum við ekki að æfa í einn og hálfan tíma til að eiga möguleika á að léttast.
Með því að breyta lífsmynstrinu, taka hreyfingu inn sem hluta af daglega lífinu, vera lengur á leiðinni í vinnuna með því t.d. að ganga eða hjóla, myndi okkur bæði líða betur allan daginn og sömuleiðis værum við búin að leysa vandamálið varðandi hreyfingarleysið.Höf:
Heimild: islenskt.is