Hreyfing er góð gegn þunglyndi
Samkvæmt upplýsingum frá vefsíðu breska heilbrigðiskerfisins NHS er mælt með að stunda miðlungs erfiða hreyfingu í að minnsta kosti 150 mínútur á viku til að halda heilsu. Smá hreyfing er samt betri en engin. Jafnvel 10 mínútna rösk ganga getur hjálpað fólki að hreinsa hugann og slaka á. Þetta kemur fram á vef Fréttablaðsins en þar segir enn fremur:
Hreyfing hefur áhrif á boðefni í heilanum eins og serótónín, dópamín og noradrenalín. Talið er líklegt að aukin virkni þessara boðefna dragi úr þunglyndi en þunglyndislyf hafa einmitt áhrif á þessi boðefni. Rannsóknir hafa sýnt að fyrir suma getur hreyfing haft jafn góð áhrif á þunglyndi og lyf. En fyrir fólk með alvarlegt þunglyndi verður þó að taka lyf samhliða aukinni hreyfingu.
Þegar fólk glímir við þunglyndi og orkuleysi getur verið erfitt að koma sér af stað í hreyfingu. Þunglyndi getur valdið svefntruflunum, breyttri matarlyst, verkjum í líkama og auknu næmi fyrir sársauka sem allt getur átt þátt í að virkja letjandi á sjúklinginn til að stunda hreyfingu.
Þá er mikilvægt að velja hreyfingu sem sjúklingnum finnst skemmtileg. Fyrir þau sem treysta sér getur verið sniðugt að skrá sig á námskeið á líkamsræktarstöð eða taka þátt í hópíþrótt með öðru fólki. En einnig er hægt að bæta hreyfingu inn í daglegt líf með því að hjóla eða ganga í stað þess að nota bíl eða almenningssamgöngur.