Hreyfingin verður lífsstíll
Senn líður að vori og margir finna fyrir þörfinni að hrista af sér vetrarslenið og drífa sig út í einhvers konar hreyfingu. Það er einmitt núna sem er svo gott að byrja að huga að því hvernig við ætlum að láta þann draum rætast.
Ef ekki eru um að ræða líkamleg veikindi er besta leiðin til að vinna bug á sleni án efa að hreyfa sig en alls ekki að leggjast fyrir. Næst þegar þörfin fyrir að leggjast fyrir hellist yfir er gott ráð að reima á sig góða skó og fara út að ganga. Göngutúrarnir geta svo orðið að hlaupatúrum ef við viljum. En aðalatriðið er að fara sér hægt af stað því það er ekki fyrr en maður fer að finna fyrir þörfinni að fara út og reyna á sig sem líkurnar á að hreyfingin geti orðið að lífsstíl aukast. Verst er að byrja og gefast upp en til að lágmarka líkurnar á að það gerist er betra að fara rétt að frá byrjun. Svo þegar þörfin er fundin verður jafn mikilvægt að hreyfa sig og að borða. Það eru engar ýkjur.
Sögð var saga af manni sem fann myndir af fólki sem var í mismunandi ásigkomulagi og notaði þær til að hvetja sig áfram fyrstu skrefin í hreyfingunni. Þetta var nokkurs konar heilaþvottur því hann áttaði sig á að það var í hans valdi hvorum hópnum hann ætlaði að tilheyra.
Skórnir mikilvægt atriði
Hvort sem við erum að hugsa um gönguferðir eða hlaupaferðir er mjög mikilvægt fyrir alla að vera vel skóaðir. Mikil mistök eru að fara af stað í slitnum skóm því töluverð hætta er á að gömul meiðsl taki sig upp sem getur orðið til þess að letja okkur. Best er að fara í íþróttaverslun og fá ráðleggingar hjá fagfólki sem þar vinnur. Góð hugmynd er að fara með gamla skó með sér því vanur skósölumaður getur séð ýmislegt af sliti skónna. Síðan er einnig hægt að fara í göngu- og hlaupagreiningu til að fá að vita hvernig maður stígur í fótinn og þá fylgja ráðleggingar um það hvernig hægt er að styrkja fótinn vel með innleggjum, allt til að okkur líði sem best þegar við erum á hreyfingu.
Göngurnar verða að hlaupum
Þegar búið er að setja göngurnar inn í dagskrána kemur þörfin fyrir að hreyfa sig fljótt og margir láta göngurnar duga, sem er líka mjög gott. Fljótlega fer fólk að vilja ganga meira en bara á jafnsléttu og þá er tilvalið að byrja á að fara í Öskuhlíðina því þar eru mjög skemmtilegar tilbúnar gönguleiðir inni á milli trjánna.
Aðrir vilja meiri hreyfingu og þá eru hlaupin næst á dagskrá. Enn og aftur er mjög mikilvægt að fara hægt af stað og finna hvort hlaupin henta. Best er að finna stutta vegalengd, 300 – 500 metra og hlaupa þann spöl á hverjum degi í 8 daga. Að þeim tíma liðnum er komið í ljós hvort hlaupin henti.
Klæðnaðurinn
Þá er komið að því að huga að klæðnaði því hann er mikilvægur í lengri hlaupum. Klæðnaðurinn má hvergi valda núningi . . . LESA MEIRA