Hryggjasúlan, daglegt viðhald
Hryggjasúlan er einn mikilvægasti hluti líkama okkar en er alltof oft vanrækt. Hryggjasúlan veitir okkur stuðning og heldur okkur uppréttum, sem og hún verndar taugakerfið okkar, mænuna. Mænan er strengur tauga sem tengir heilann við restina af líkamanum. Mænan og heilinn mynda saman miðtaugakerfi líkamans.
Algengt er að fólk stundi athafnir og hreyfingu sem á endanum geta haft slæm áhrif á hrygginn og mænuna. Hér er ekki átt við skipulagða hreyfingu eins og að fara út að hlaupa, ræktina eða annað (við mælum eindregið með daglegri hreyfingu), heldur daglegar athafnir, sem dæmi að sitja hokin/n í stólnum á skrifstofunni eða lyfta þungum hlutum með rangri líkamsbeitingu.
Í grunninn ætti hryggjasúlan að vera bein lína ofan frá hálsi og niður ef horft er beint framan á hana. Þá á hryggjasúlan að innihalda náttúrulegar sveigjur þegar horft er á hana á hlið en þessar sveigjur veita hryggnum viðbótarstuðning og virka sem hálfgerðir demparar. Ef þessar sveigjur eru ekki að ná að starfa eðlilega, geta með tímanum viðkvæmar taugar skaðast. Vöðvarnir í kringum hrygginn gegna svo lykilhlutverki til að viðhalda góðri líkamsstöðu, þar eru kjarnavöðvar (e. core muscles) mjög mikilvægir.
Huga þarf vel að hryggjasúlunni í daglegu lífi til þess að viðhalda góðri heilsu. Það er gert til dæmis með því að huga að vinnuaðstöðu. Ef vinna okkar einkennist af mikilli setu, þá myndast álag á hryggjaliði okkar sem með tímanum getur valdið langvarandi eymslum. Þá þarf að huga vel að þeim búnaði sem notast er við, við setuna. Til dæmis að stóll sé rétt stilltur og sömuleiðis skrifborðið. Ef vinna okkar einkennist af því að lyfta eða færa til þunga hluti er mikilvægt að halda hlutnum, sem verið er að lyfta, þétt að líkamanum og varast það að snúa uppá hrygginn. Einnig að nota lærvöðvana frekar en bakvöðvana þegar verið er að beygja sig og halda þannig bakinu beinu.
Aðrir þættir sem geta haft jákvæð áhrif á hryggjasúluna eru:
Dagleg hreyfing -
Dagleg hreyfing sem inniheldur styrk, þol og liðleika getur meðal annars dregið úr bólgum, styrkt hryggjasúluna og viðhaldið heilbrigðum liðböndum og liðum.
Jákvætt hugarfar og andleg heilsa -
Það hefur sýnt sig og sannað að hugurinn og jákvætt hugarfar getur haft mjög jákvæð áhrif á líkamlega heilsu og öfugt, þ.e. góð líkamleg heilsa getur haft jákvæð áhrif á andlega heilsu.
Gott mataræði -
Við erum flest kunnug um að rétt mataræði getur skipt sköpum þegar kemur að líkamlegri heilsu. Rétt mataræði getur til dæmis hjálpað til við að eyða bólgum sem hafa myndast í líkamanum og jafnvel spornað gegn beinþynningu, slitgigt og öðrum líkamlegum kvillum og þar með styrkt hryggjasúluna.
Svefn og svefnstellingar -
Þegar valið er rúm og kodda er mikilvægt að velja búnað sem styður við náttúrulega sveigju háls og mjóbaks. Það fer svo eftir hverjum og einum hvað á best við hverju sinni. Við mælum með ráðgjöfum hjá sérfræðingi til þess að finna út hvað henti best. Almennt er þó mælt með að forðast það að sofa á maganum þar sem slík svefnstelling getur gert bakið viðkvæmara fyrir meiðslum og verkjum í daglegu lífi.
Gott er að huga vel að öllum þessum þáttum sem nefndir hafa verið hér að ofan til þess að hjálpa til við að viðhalda góðri heilsu þegar kemur að hryggjasúlunni og þar með mænunni. Mikilvægast af þessu öllu er að við séum meðvituð um okkar hryggjasúlu og þeim mikilvægu hlutverkum sem hún gegnir í okkar daglega lífi. Það að hugsa vel um hrygginn okkar getur komið í veg fyrir að ýmsir fylgikvillar þróist í framtíðinni. Við þurfum að bera virðingu fyrir hryggjasúlunni og hugsa um hana í daglegum athöfnum en einnig er mælt með reglulegri skoðun hjá sérfræðingi fyrir álit og ráðgjöf. Líkt og með tennurnar okkar, þá er krefst hryggjasúlan okkar þess að vera í stöðugu viðhaldi og eftirliti til þess að hún starfi sem best. Við á Kírópraktorstöðinni mælum með að þú gætir vel að hryggjasúlunni þinni svo þú getir notið lífsins til hins ítrasta.