Fara í efni

Máttugur, voldugur - hugleiðing frá Guðna í dag

Máttugur, voldugur - hugleiðing frá Guðna í dag

Lausnin felst í ábyrgðinni – frelsið felst í ábyrgðinni.

Í augnablikinu þegar þú mætir, þegar þú sest aftur í stólinn og þolir við í meira en eina mínútu, þegar þú getur setið í stólnum eða sófanum og látið þér leiðast – án þess að vera leiður; þegar þú getur bara verið án þess að þurfa að gera eitthvað annað eða vera með hugann við eitthvað annað.
Þá ertu mættur. Og þá ertu máttur – með máttinn, máttugur, voldugur, með vald; ekki vald í neikvæðri merkingu heldur í fullkomlega jákvæðri og andlegri merkingu – vald til að valda, valda eigin lífi, valda eigin viðbrögðum og velja eigin viðbrögð.
Ekki í vansæld heldur velsæld – jafnvel valsæld.
Þá ertu mættur í máttinn til að valda því að velja viðbragð. Í stað þess að bregðast við áreiti út frá hvötum skortdýrsins með taugakipp sem þú hefur enga stjórn á veldurðu því að velja viðbragð.
Við vitum hvað manneskjan er fær um – dýpsta kær­ leika og verstu grimmd.
Ég veit hvað ég er fær um. Þess vegna vil ég vera í eigin mætti, þess vegna vil ég geta valið mín eigin viðbrögð.
Orðið ábyrgð er mikið til umfjöllunar í mínum skrifum, ekki síst hversu mikið við leggjum á okkur til að bera ekki ábyrgð í eigin lífi. En mér þykir alltaf vænt um það hversu gegnsætt orðið er á enskri tungu.
„Responsibility.“
„Response-ability.“
„Response“ þýðir viðbragð.
„Ability“ þýðir geta eða hæfileiki.
Þeir sem taka ábyrgð – í merkingu enskrar tungu – eru að lýsa því yfir að þeir hafi getu til að bregðast við.

Að þeir hafi getu til að velja viðbragð.