Hugurinn ber þig hálfa leið - hugleiðing dagsins
Hugurinn ber þig hálfa leið – en hjartað alla
Heitbindingin er að leyfa sér að opna hjarta sitt, rífa utan af því plastið og skjöldinn og upplifa að hjartað er keisarinn – að láta af efanum og treysta á eigin vilja, tilvist og tilgang. Öll streita er uppsafnaður efi og ótti sem minnkar slagrými hjartans – og efinn er eins langt frá ást og ljósi og hugsast getur. Það er lengsta og erfiðasta fjarlægðin.
En við elskum efann svo mikið:
„Já en, hvað ef einhver ræðst á mig? Heimurinn er svo grimmur ...“
Okkur er tamt að vilja verja hjartað og slá um það varnarhjúp. Í reynslubankanum eru fjölmörg sönnunargögn sem benda til þess að heimurinn sé grimmur og annað fólk sé líka grimmt – en grimmust séum við sjálf í eigin garð. Þess vegna treystum við ekki – ekki heiminum, ekki öðrum, ekki okkur.
En þetta þrefalda vantraust er blekking eins og svo margt annað. Eina vantraustið sem skiptir máli er það sem við höfum í eigin garð. Því þegar við treystum sjálfum okkur þá skiptir engu máli hvernig heimurinn er og hvernig ekki; hvernig aðrir haga sér í okkar garð.
Þá verður það allt að aukaatriði. Sá sem mætir í eigin mátt í núið og treystir sjálfum sér tekur öllu lífinu fagnandi og elskar það eins og það er. Hann þarf ekki einu sinni dóma.
En ...
En ...
„En ... hvað ef?“ segir skortdýrið og bendir á reynslubankann sinn – því skortdýrið lúrir á reynslubankanum og notar eftirsjána til að viðhalda sér. „Hvað með efann?“ segir dýrið og það getur virkað mjög sannfærandi. En þegar þú hefur fengið smjörþefinn af frelsinu og friðinum sem fylgir því að skilja að þú ert ljós og að ábyrgðin er þín og tilgangurinn er þinn – þá skilurðu að öll þessi „en“ eru aðeins leiðir skortsins til að viðhalda blekkingunni. Blekkingin hrynur þegar við hlustum á hjartað – þegar við veljum að hætta að verja orkunni til að halda henni uppi.
Finndu orkuna sem sparast þegar þú heldur ekki uppi flókinni blekkingu.
Heitbindingin er kjarni þess að vera í vitund. Þegar ég vil ekki mæta til fulls þá er ég alltaf með hálfkák – alltaf að skammta umhverfi mínu og eigin tilvist tiltekna velsæld. Og þar með vansæld.
Heitbindingin er að vera kominn inn á sama svið og skaparinn – sama svið og hjartað.
Heitbindingin merkir að við erum lofuð – sjálfum okkur, til fulls, í blíðu og stríðu, liggjandi og fljúgandi, fullkomin og máttug.
Heitbindingin er að tjá heiminum hver við erum og hvað við viljum.